Sunday 19 October 2008

!!!

Ég fékk að gjöf frá ágætisvini mínum bók sem heitir: The more I see of men, the more I love my cat. Þeir sem þekkja mig vita væntanlega að ég er ekki mikil kattakona...

Og, þetta sem ég sagði um bílinn um daginn er greinilega rétt, það er alveg á hreinu að hann er eitthvað að skjóta sér í bifvélavirkjanum. Nú er framrúðan sprungin!!!

Friday 17 October 2008

Blessaður bíllinn

Ég er að spá í að fara fram á að fram fari rannsókn á fjármálum heimilisins og ætlast til að að bíllinn taki ábyrgð á 50faldri þennslu síðustu mánaða. Þarfasti þjónninn minn er held ég skotinn í bifvélavirkjanum og ég er búin að fara með hann á verkstæðið þrisvar sinnum á fjórum mánuðum til að láta dytta að honum.

Thursday 2 October 2008

Sundnámskeið

Óðinn byrjaði á sundnámskeiði í dag. Við ætlum að fara í þessa tíma í hádeginu á fimmtudögum. Honum fannst alveg ótrúlega gaman og brosti bara hringinn allan tímann sem við vorum í lauginni. Mér fannst líka mjög gaman og líst vel á þessa tíma, kennarinn er mjög hress og skemmtileg stelpa, og krakkarnir gera allt sem hún biður um. Það eina sem mér finnst skrítið er að það eru ekki sér skiptiklefar fyriri konur og karla! Það fara allir inn á sama svæðið og svo eru litlir klefar þar inni sem maður fer inn í og skiptir yfir í sundfötin. Þá þarf maður að bera allt draslið að skápunum og svo er bara labbað beint út í laug ... það þvær sér enginn áður en þeir fara í laugina!!! Mér finnst það heldur subbó, verð bara að segja það. Svo er náttúrulega ekki hægt að þvo sér almennilega í sturtunum, því þær eru sameiginlegar líka!!! Ég fatta þetta bara engan veginn. Það væri minnsta mál að gera þetta að tveim aðskildum svæðum. En, þetta skiptir ekki máli. Mestu skiptir að Óðinn er rosalega ánægður með að fara í sund og ég er glöð að geta farið með honum ... þvæ mér bara vel þegar ég kem heim ;o)

Wednesday 1 October 2008

Skólaskylda!

Skólaskylda byrjar hér í Englandi skólaárið sem börn verða fimm ára. Ég fékk bréf frá skólayfirvöldum þess efnis að nú skyldi ég velja skóla fyrir Óðinn og að umsóknarfrestur sé 16. október. Þetta er allt mjög flókið og ég er nú með lista af skólum sem eru frá 0.8 - 1.4 mílna fjarlægð frá húsinu sem við búum í, þar þarf ég að fara í heimsókn á opna daga og hlusta á hvers vegna ég skuli velja þennan skóla en ekki hinn. Þeir taka inn nemendur í tveimur hópum og Óðinn byrjar í janúar 2010. Ég fór í fyrstu heimsóknina í morgun og leist bara ágætlega á skólann, krakkarnir virtust kát og sátu voða stillt í tímunum. Ég á eftir að fara í fimm skóla í viðbót, svo það verður spennandi að sjá hvort það sé einhver munur á þeim.

Það er fyrsti í sundnámskeiði hjá okkur mæðginum í hádeginu á morgun :)

Monday 29 September 2008

Helgin

Það var mjög gott veður um helgina og við mæðgin nutum þess í botn. Óðinn er orðinn mjög skæður á hjólinu sínu og ég hleyp sveitt á eftir honum. Við tókum því bara rólega, fórum í hjóla/hlaupatúra, slógum grasið í garðinum og fórum til Ashridge í gönguferð um skóginn. Óðinn er á algjöru klifurskeiði þessa dagana og ég þurfti að elta hann upp um allt til að passa að hann færi sér ekki að voða. Hann var líka mjög stoltur að geta kennt mér að hoppa á einum fæti! Mjög gaman.

Tuesday 9 September 2008

Hvað er klukkan?

Óðinn kom upp í rúm til mín í morgun klukkan sex. Ég var að reyna að sannfæra hann um að það ætti alls ekki að fara á fætur fyrr en í fyrsta lagi klukkan sjö, svo hann sneri bara vekjaraklukkunni á hvolf og þá var hún orðin níu! Honum fannst þetta rosalega fyndið - og mér reyndar líka, þó ég sé engin brandarakelling svona snemma á morgnana.

Annars er ég nýkomin heim. Fór í mæðraorlofshelgarferð til Íslands, hitti líffræðigengið, fór á þátíðarhitting með gamla gagnfræðaskólaárgangnum mínum og hitti fjölskylduna í mýflugumynd. Þetta var ótrúlega skemmtileg ferð, gaman að hitta gamla vini og nýja.

Sunday 24 August 2008

Handbolti og PCR

Halló halló, ég er á lífi ... og rúmlega það eftir að hafa vaknað í morgun til að horfa á handboltann. Þetta var kannski ekki skemmtilegasti handboltaleikur sem ég gef séð, var alveg búin að gleyma hvað það er gaman að horfa á handbolta, en magnað hjá strákunum að vinna silfrið. Ég er ekki viss um að það sé manni hollt að lenda í svona geðshræringu snemma morguns!

Óðinn er hjá pabba sínum um helgina, svo ég skellti mér í vinnuna af gömlum vana og var þar að slást við PCR maskínuna þar til klukkan níu í kvöld. Ég held ég hafi náð áfangasigri í þeirri viðureign, eða vona það allavega. Fyrir þá sem ekki vita hvað PCR er, þá bara skiptir það engu máli, nægir að segja að það tekur langan tíma og virkar ekki alltaf sem skildi ;o)

Thursday 31 July 2008

Pólskt súkkulaði og skrímsli

Ég er mætt aftur til Englands og tók með mér Prince Polo til að gefa vinnufélögunum. Þetta var aðallega gert vegna þess að einn úr vinnuhópnum er pólskur og honum finnst mjög fyndið að Prince Polo sé til á Íslandi.

Hann bætti síðan um betur og lét bróður sinn koma með "Grzeski" handa mér, sem er eiginlega betri útgáfa af Prince Polo. Alveg eðal súkkulaði, gæti alveg torgað heilum kassa.

Óðinn er með skrímslaæði þessa dagana, sem er í góðu lagi, nema fyrir það að hann er viss um að það séu skrímsli í skápum og undir rúmi þegar hann fer að sofa ...

Thursday 3 July 2008

Mömmuklúbbur

Við Óðinn erum að fara í afmælishitting í mömmuklúbbnum mínum á morgun. Krakkarnir eru allir að verða þriggja ára í júní og júlí. Við ætlum að fara með þau í boltaland og síðan koma allir heim til okkar. Ég verð að sjálfsögðu með miklar veitingar í boði, skrapp í Sainsbury´s áðan og keypti upp kökubirgðirnar þeirra ;-)

Wednesday 2 July 2008

Úff, rosalega er langt síðan ég skrifaði eitthvað. Það er búið að vera mikið um að vera. Auður kom í heimsókn eina helgi. Við náðum aðeins að kíkja í búðir frænkurnar, það gekk alveg ágætlega hjá okkur ;) Stuttu seinna kom mamma, og pabbi þar á eftir. Þau héldu heimili fyrir mig í 10 daga. Það var algjör lúxus, maturinn tilbúinn þegar við Óðinn komum heim á daginn og sjálfvirkur uppvaskari (mamma) og garðyrkjumaður (pabbi). Ég er að spá í að flytja þau bara inn.

Það er líka fjör í náminu að vanda. Allar tilraunir í gangi í einu og ég á eftir að enda eins og vísindamaðurinn í "Back to the Future" með hárið út um allt og kannski yfirvaraskegg líka, hver veit. Bilun. Svo voru skólaheimsóknir um daginn. Við fórum með krakkana í pödduleit. Það var alveg frábært, þau voru svo áhugasöm.

Óðinn hlakkar mikið til afmælisins síns og talar endalaust um hvenær hann verði þriggja ára. Stór strákur!

Tuesday 17 June 2008

Frægð og frami ;o)

Það er mynd af mér á fréttasíðu Porter Alliance og í nýja bæklingnum þeirra. Þetta eru samstarfsaðilar okkar, en þeir hafa samt ekkert með verkefnið mitt að gera - og ég hef ekki hugmynd afhverju þeir settu mynd af mér... held það hafi verið af því að ljósmyndarinn var svo ánægður með rauðu peysuna mína sem mótvægi við græn laufin á trjánum. Mjög vísindalegt allt saman.

Monday 16 June 2008

Afmælisplön og fleira

Ég er búin að sitja við boðskortaskriftir í kvöld. Ég ætla að halda upp á afmælið hans Óðins 13. júlí og nú eru allir beðnir að biðja til veðurfræðinganna um sól og gott veður! Planið er að vera með liðið úti í garði, leigja hoppukastala, fara í kónga og aðra leiki. Það var frekar erfitt að takmarka gestalistann, svo þetta verða kannski of margir, en það hlýtur að reddast ... vona bara að það rigni ekki, því það er ekki pláss fyrir alla inni hjá okkur. Óðinn er mjög spenntur og talar um afmælið sitt á hverjum degi. Nú verð ég að standa mig og byrja að eyða brenninettlum úr garðinum og merkja kanínuholurnar, svo fólk hrynji ekki ofan í þær!

Óðinn er mikill athafnamaður og var alls ekki á því að við ættum að vera neitt inni við í dag, því við þyrftum sko að vinna í garðinum - "because it´s not growing properly!". Ég verð að segja að ræktin í garðinum er svo góð að ég heyri "blessað" grasið vaxa, að ekki sé talað um arfann út um allt. Hann er líka búinn að suða svo lengi um að við setjum upp matardall fyrir fuglana, að ég lét það loksins eftir honum í dag. Svo stóð hann fyrir neðan greyjið og kallaði hástöfum á fuglana að hann væri búinn að setja út hádegismat fyrir þá, en skildi svo ekkert í að þeir flokkuðust ekki til hans.

Það er líka búið að vera nóg að gera undanfarið og gaman. Auður kíkti í heimsókn um helgina, og við áttum góða daga saman frænkurnar. Svo er mamma að koma á miðvikudaginn og pabbi væntanlegur fljótlega á eftir henni. Alltaf nóg að gera og skemmtilegt í Álmkoti!

Tuesday 10 June 2008

Hér er búin að vera alveg ótrúleg blíða síðan á föstudag, ég er búin að draga fram sumarfötin og þurfti að slást við að slá blettinn líka. Grasið náði í mitti (á Óðni) og ég held ég hafi gert útaf við sláttuvélina...

Annars er það helst að frétta að Óðinn datt niður stigann á föstudagskvöldið, frá toppi og alla leið niður. Þetta leit mjög illa út, þar sem hann fór með höfuðið á undan, en hann slapp nokkuð heill frá þessu. Við fórum upp á slysó til að láta athuga hvort það væri allt í lagi. Honum fannst það mjög spennandi, en mér fannst það síður, föstudagskvöld á slysavarðstofum eru ekki fyrir börn! Þegar ég fór að ræða þessar ófarir við vini og kunningja, þá er þetta eitt það algengasta sem börn (og fullorðnir) slasa sig á hér, enda stigar í flestum húsum í Bretlandi. Allavega, þá verða hliðin áfram fyrir stiganum hjá okkur og Óðinn fær ekki lengur að fara einn upp og niður.

Já og ég er líka loksins búin að bóka sumarfríið. Við komum heim 15. júlí og verðum í tvær vikur!

Thursday 5 June 2008

Fiðrildi

Við Óðinn rekum fiðrildagildru í garðinum þessa vikuna. Þetta er ljósgildra sem fiðrildin (moths) safnast að yfir nóttina og við tökum þau lifandi og setjum í búr. Það stendur yfir svokölluð "smádýravika" í vinnunni, en þá koma skólahópar að hitta vísindamenn/konur og við förum með þau í víðavangsferðir, þar sem við söfnum hryggleysingjum fyrir þau að skoða. Við erum líka með stórt búr sem þau fá að fara inn í og þar eru fiðrildin sem við Óðinn söfnum. Þetta hefur gengið alveg stórvel hjá okkur, Óðinn er mikill veiðimaður. Það varð reyndar smá óhapp fyrsta morguninn, ég var alveg að verða búin að tæma gildruna þegar Óðinn fór að segja mér frá fljúgandi "býflugum" ... hann hafði opnað búrið og hálfur fengurinn hafði sloppið! En hann er mjög passasamur með þetta síðan þá og veit alveg hvernig á að fara að þessu - og þekkir muninn á býflugum og fiðrildum!!!





Hérna er strákurinn mjög stoltur með litla búrið við hliðina á ljósgildrunni.

Thursday 29 May 2008

Jarðskjálfti

Ég sá á netinu í dag að það hafi orðið annar Suðurlandsskjálfti. Þó það hafi verið tekið fram að engin stórslys hafi orðið á fólki, þá fannst mér óþægilegt að vera svona langt í burtu, sérstaklega þar sem upptökin voru á mínum heimaslóðum. Ég er búin að heyra í og af fjölskyldunni og veit að þar eru allir heilir. Vona að allir hafi það sem best.

Wednesday 28 May 2008

Tónlist í rigningu

Ég var í úti á túni að leita að blaðlúsum í dag með spilarann í eyrunum að venju og komst að því að Edith Piaf er flott á svona degi. Það er allt grátt og svona úði sem kemst allstaðar inn undir. Sem betur fer var ég með linsur, því gleraugu virka engan veginn í svona úða. En allavega, þá var Piaf góður félagi í rigningunni.

Tuesday 27 May 2008

Skýrslan

Skýrslan um ágengu tegundirnar og flokkunarfræði er komin út á netinu: Invasive species management: what taxonomic support is needed? Hún er gefin út af Global Invasive Species Programme.

Setti slóðina inn svo þið getið lesið hana ykkur til dundurs...

Friday 23 May 2008

Aberdeen

Ég var að koma heim af ráðstefnu í Aberdeen. Ég hafði ekki farið svo norðarlega í Skotlandi áður og mér fannst ég vera komin hálfa leiðina heim til Íslands. Það var mjög kunnuglegt að vakna við mávagarg og köll í tjaldi, finna sjávarloftið, nú og svo var líka kaldara og meira rok alveg eins og heima. Ráðstefnan var mjög fín, það voru 38 fyrirlestrar á einum og hálfum degi, svo ég er vel þreytt núna. Fyrirlesturinn gekk alveg ágætlega, ég fékk nokkrar góðar spurningar og svo voru ágætis umræður um verkefnið mitt seinna.

Borgin var allt í lagi, fallegur granítsteinn í húsunum, en niðri við höfnina var mikið af sjóarakrám og ég er ekki viss um að ég myndi labba þar um eftir myrkur. Ráðstefnuhaldarar fóru með okkur að Dunnottar, mjög fallegum kastala, þar sem við gengum um í um klukkutíma og fórum síðan á veitingastað í sjávarbæ sem heitir Stonehaven.

Þetta var mjög fín ferð og ég hitti mikið af góðu fólki, en ég hlakka líka mikið til að fara og ná í Óðinn í fyrramálið, er búin að sakna hans óendanlega.

Tuesday 20 May 2008

Chelsea Flower Show

Ég var að vinna á standinum okkar á Chelsea Flower Show í dag. Okkar standur er partur af símenntunarhluta sýningarinnar og það var mikið af fólki sem kom og talaði við okkur, bæði um víðitrén og vísindin, svo það var mjög gaman. Það er aðallega áhugafólk um garðrækt sem sækir sýninguna, en fólk kemur allstaðar að úr heiminum. Fólk er orðið mjög meðvitað um græna orku og margir farnir að huga að því að verða sjálfbærir með orku fyrir heimilin.

Svo spillti ekki að standurinn fékk "Gull", sem er hæsta einkun sem dómararnir gefa :)

Kíkið á slóðina hérna: Chelsea Flower Show þar sem er mynd af standinum og á listann yfir verðlaunahafa (við erum undir "Continuous learning").

Saturday 17 May 2008

Skýrsla

Ég fékk símtal í gær frá fyrrverandi vinnuveitanda. Hann var að segja mér að skýrsla sem ég skrifaði fyrir um tveimur árum á að koma út á mánudaginn. Ég var alveg búin að gefa upp von með að hún yrði nokkurn tímann birt, svo ég er að sjálfsögðu mjög kát með þetta.

Annars er ekkert merkilegt að gerast þessa helgina. Ég er í vinnunni að undirbúa fyrir Chelsea Flower Show, þar sem grúppan er með stóran stand um víði og "græna orku". Við erum að kynna rannsóknirnar sem við erum að gera og það verða m.a. búr með blaðlúsum til að sýna fólki. Drottningin labbar víst um svæðið á mánudaginn (sýningin opnar fyrir almenningi á þriðjudaginn), og ég vil endilega að kella sjái gæludýrin mín ;)

Það er hópur úr vinnunni að fara á indverskan veitingastað í kvöld, svo ég skelli mér kannski með ... fer eftir hvenær ég klára á labbanum ...

Wednesday 14 May 2008

Takk takk

Takk fyrir afmæliskveðjurnar, bæði hér, í símanum og tölvupóstana.

Ég eyddi sjálfum afmælisdeginum á tölfræðikúrsi. Fyrir þá sem ekki vita, þá eru líffræðingar haldnir mikilli tölfræðiskelfingu og þetta þóttu hræðileg örlög. Samnemendur mínir á kúrsinum keyptu handa mér köku með afmæliskertum og blómvönd, til að gera daginn þolanlegri. En, kúrsinn var alveg ótrúlega góður og ég þykist vera orðin mikið tölfræðiséni núna ;)

Sunday 11 May 2008

Gaman gaman



Helgin er búin að vera alveg yndisleg, glampandi sól og steikjandi hiti. Við tókum því rólega í gær mæðginin og áttum langþráðan "fjölskyldudag" þar sem við kíktum í búðina, lékum okkur í garðinum, fórum í göngutúra, út að hjóla og bökuðum krispies kökur fyrir Óðinn. Það er svo gaman að honum, hann þarf að spá í öllu og talar út í eitt.




Í dag hélt ég smá afmælisveislu í tilefni af því að ég verð 29 ára á þriðjudaginn ;-) Ég útbjó íslenskt afmælishlaðborð, með brauðréttum, brauðtertum, ostum og tertum. Emily vinkona mín kom með afmælisköku og útbjó sérstakan afmælisdrykk með mangó og kampavíni. Þetta var mjög skemmtilegt og við eyddum öllum eftirmiðdeginum í garðinum í 25°C og stillu, sögðum brandara, spiluðum fótbolta og frisbí við krakkana og endurnýjuðum sólarvörnina reglulega.


Skál :)

Sunday 4 May 2008

Enn ein vinnuhelgin...

Jebb, ég er á labbanum þessa helgina. Þetta er meira að segja löng helgi hjá okkur, þar sem 1. maí frídagurinn er færður fram á mánudag. Það gengur aðeins betur en fyrr í vikunni, þegar allt var í uppnámi í vinnunni hjá mér vegna blaðlúsavandamála. Blaðlýsnar eru enn á trjánum, svo ég þurfti að snúa mér að öðru, þangað til það leysist. Nú er ég að vinna í stofnerfðafræði og það er bara mjög spennandi ... allavega á meðan vel gengur.

Óðinn er hjá pabba sínum um helgina, en ég heyrði í honum í síma áðan. Hann var að koma úr afmæli hjá Sam, vini sínum, og ég fékk nákvæmar lýsingar á veislunni og nammipokanum sem hann fékk þegar hann fór heim (hér fá krakkar alltaf lítinn poka með nammi og dóti á leiðinni heim úr afmælum). Nú fer ég að verða stressuð yfir afmælinu hans Óðins! Í þessu afmæli var hoppukastali og allskonar leikir. Það fer að verða spurning um að flytja Siggu systir inn til að redda þessu fyrir mig!!!

Thursday 1 May 2008

Baby Christmas

Óðinn fann í kvöld dót sem Kristófer litli frændi hans hafði leikið sér með þegar þau voru hérna um páskana og hafði miklar áhyggjur af því að "baby Christmas" (hann getur ekki sagt Kristófer og kallar hann bara jól í staðinn) hefði ekki dótið hjá sér á Íslandi.

Monday 28 April 2008

Mikill bömmer!

Ég mætti galvösk í vinnuna í morgun, en hefði betur sleppt því. Ég var varla búin að kveikja á tölvunni þegar ég frétti að víðitrén mín í gróðurhúsunum væru orðin loðin af blaðlúsum. Þetta er ekki gott því, a) þetta eru ekki "mínar" blaðlýs, heldur önnur tegund; b) nú get ég ekki notað trén í tilraunirnar, því þetta hefur áhrif á niðurstöðurnar og c) það tekur þrjá/fjóra mánuði að ný tré verði orðin nógu stór til að ég geti byrjað aftur.

Það er allur dagurinn búinn að fara í að reyna að finna lausn á þessu máli. Það þýðir ekkert að gráta Víði bónda alltof lengi (þó mig langaði mest að fara bara að skæla í morgun, var búin að plana stífa tilraunaviku) og það verður að redda þessu einhvernveginn. Það gæti verið komin hlutalausn í málið, svo ég geti haldið áfram, en ég kem samt til með að þurfa að endurtaka tilraunina :(

Helgin var mjög fín. Við Óðinn fórum í heimsókn til Kelly, Daegan og Theo á laugardaginn og komum tilbaka í gær. Það var alveg yndislegt veður á laugardeginum og við eyddum honum í garðinum hjá þeim, tíndum rabbabara í pæ og höfðum það notalegt.

Tuesday 22 April 2008

Brussel

Ég fór í heimsókn til Kristrúnar frænku minnar í Brussel og átti þar alveg frábæra helgi. Það var mikið borðað, drukkið og spjallað fram á nætur.

Ég ætlaði að setja inn myndir, en það gengur ekki í augnablikinu, svo ég læt bara nægja í bili að segja að þetta var alveg stórskemmtileg ferð.

Það var minna gaman að koma aftur í stressið í vinnunni... en það stendur til bóta ;)

Monday 14 April 2008

Duglegur strákur... + matur og meiri matur!

Óðinn tók upp á því í síðustu viku að smyrja rassakremi á sjónvarpið - afþví að það meiddi sig einhver í sjónvarpinu...! Grrr, það tók mig allt kvöldið að þrífa eftir hann og það er ennþá fituskán á sjónvarpinu. Þetta var samt mjög fagmannlega gert hjá honum.

Helgin var mjög fín, við vorum með gesti í hádegismat á laugardaginn. Það var vinur hans Óðins úr leikskólanum og foreldrar hans, þau vinna með mér. Við átum ótæpilega af kjúkling og fórum svo í góðan göngutúr og eyddum eftirmiðdeginum í að spjalla og hafa það notalegt. Strákarnir voru mjög glaðir að hittast líka og drógu fram allt dótið hans Óðins til að leika með, það var mjög gaman að fylgjast með þeim.


Óðinn hjálpaði mér líka að baka kryddbrauð fyrir alþjóðlega hlaðborðið í vinnunni. Það tókst bara ágætlega, brann allavega ekki við - og það veit enginn að það var ekki alveg jafn gott og hjá mömmu. Þetta var mikil veisla, við Óðinn smökkuðum á öllu. Honum fannst kúbverskt pastasalat best, en mér baunastappa frá Ghana með steiktum banönum. Namm.



Þetta er annað árið sem ég hef farið á hlaðborðið og ég ætla aftur á næsta ári. Það var mikið rætt um að fólk þyrfti að gefa upp uppskriftir af réttunum, því þeir voru hver öðrum gómsætari.






Tuesday 8 April 2008

Strumpur?

Ég fór að dæmi Maríu vinkonu minnar og tók strumpaprófið. Er ekki alveg viss um að strumpapersónuleikinn minn eigi við í veruleikanum (vil allavega ekki kannast við að vera "moody" hahaha), en ég læt öðrum eftir að dæma það... ;)


Hjálp!!!

Á sunnudaginn er aftur komið að alþjóðlega deginum þar sem fólk á að koma með eitthvað matarkyns frá sínu heimalandi. Í fyrra reyndi ég að baka kanilsnúða, en þeir misheppnuðust aðeins og voru eins og apalhraun undir tönn, svo ég fór ekki með þá. Ég tók þá í staðinn með mér smá söl og harðfisk, sem vöktu meiri athygli en lukku, svo ég get ekki gert það aftur.

Getur einhver gefið mér uppástungu að einhverju matarkyns sem ég get búið til og farið með. Nota bene, það má ekki vera mjög flókið, þá fer allt í kerfi hjá mér ;)

Monday 7 April 2008

Bíóferð

Ég skrapp í bíó í gærkvöldi, sem er kannski ekki í frásögur færandi, nema af því að ég fór í mjög skemmtilegt bíó.

http://www.therexcinema.com/

The Rex er í Berkhamsted og var gert upp fyrir nokkrum árum. Það er alltaf uppselt á sýningarnar hjá þeim, svo við vorum mjög heppnar að fá miða í gær. Aðalatriðið er nefnilega að maður situr í rauðum flauelsklæddum stólum við borð með kertaljósi. Það er bar og hægt að panta sér vín og osta, og það eru þjónar sem koma með þetta til manns. Algjör lúxus. Svona eiga bíó sko að vera! Annars var myndin ekkert spes, Ekki snerta öxina (Ne touches pas la hache), frönsk mynd sem var vægast sagt langdregin og pínu tilgerðarleg. En það gerði ekkert til í svona fallegu umhverfi :)

Takk fyrir commentin, alltaf gaman að heyra frá ykkur. Sendi þér póst við tækifæri Randý - Óðinn minn á líka afmæli 13. júlí.

Sunday 6 April 2008

Fyrsta fótboltaæfingin


Óðinn fór á fyrstu fótboltaæfinguna sína í gær. Hann var ótrúlega sætur í búningnum sínum og fannst mjög gaman, þó hann væri pínu feiminn til að byrja með.

Wednesday 2 April 2008

Myndir



Strákarnir fengu að fara út að hjóla í rigningunni, Harvey, Simon og Óðinn.





Það var mikið fjör að blása í ýlurnar. Mandy með Hönnu litlu, Harvey og Óðinn.



Við hittum farfugla í St. Albans á sunnudaginn. Kelly, Wayne, Auður og Biggi afmælisbarn. Biggi átti afmæli, held hann hafi orðið 23 ára! Er eiginlega alveg viss :)

Monday 31 March 2008

Gestagangur

Við fengum fullt af gestum um helgina. Auður var á landinu og kíkti á föstudagskvöldið. Það var frábært að hitta hana og ég verð að segja að ég sakna þess mikið að hafa þau í St. Albans. En, þau eru ánægð á Íslandinu góða, svo ég er að sjálfsögðu ánægð fyrir þeirra hönd (þó sjálfselskupúkinn segi að það væri nú betra að hafa þau hérna...).

Á laugardaginn komu Mandy og Simon með krakkana frá Manchester. Harvey, strákurinn þeirra, og Óðinn eru góðir félagar og léku sér vel saman, fyrir utan nokkra árekstra þar sem báðir vildu leika með sama dótið. Hannah, litla stelpan þeirra er 5 mánaða og algjört krútt. Hún bara brosti og var glöð, þessi elska. Við eyddum laugardegi og fyrriparti af sunnudegi í að borða, drekka, og borða meira. Það þurfti líka að viðra rokið úr nefinu á strákunum, svo við fórum með þá út á hjólunum. Óðni tókst að detta í stóran poll og var alveg gegnblautur, þetta var mjög flott fall, hann flaug alveg af hjólinu.

Við Óðinn kíktum síðan á kránna að hitta Auði, Bigga, Wayne og Kelly þegar Manchesterfjölskyldan var farin á sunnudaginn. Biggi átti afmæli og fékk þetta líka fína afmælisveður, sól og blíðu! Um kvöldið komu síðan vinnufélagar í heimsókn til að baka með mér köku fyrir góðgerðasöfnun í vinnunni í dag. Mín kaka brann reyndar upp til agna ... ég baka víst bara vandræði, eins og pabbi sagði einhverntíma ;-)

Wednesday 26 March 2008

Páskar

Það var mikið fjör um páskana, þrátt fyrir versta páskaveður í Englandi í manna minnum. Sigga og fjölskylda komu til okkar og voru í tíu daga. Það var mikið brallað og alltaf nóg um að vera, enda fjögur börn á heimilinu... Reyndar getur Guðrún Sunna varla kallast barn lengur og hún er líka svo þæg og góð ;)


Við fórum og hittum Tomma togvagn og félaga á föstudaginn. Það var alveg ískalt og brjálað rok, en við létum okkur hafa það. Óðinn var ekki í besta skapi og tók flotta aríu á veitingastaðnum, en honum fannst mjög gaman eftirá. Þarna var líka alveg afpsyrnulélegur töframaður með sýningu, verst að hafa ekki tekið mynd af kallinum, hann var alveg í sérflokki!



Við fengum okkur rúnt í Tomma togvagni. Hann fór nú ekki langt, bara fram og tilbaka, ca 500 metra eða svo í beina línu. En, það var farið tvær ferðir með okkur, svo þetta tók nú alveg korter og það var allavega logn inni í vagninum.





Við fórum í boltaland á laugardaginn. Þórhildur og Óðinn hlupu strax í sitthvora áttina og það þurfti þrjá fullorðna til að fylgja þeim eftir. Kristófer fékk að fara í boltapyttinn og við fórum öll nokkrar bunur í rennibrautinni.






Við áttum notalegan páskadag. Það snjóaði meira og minna allan daginn. Krakkarnir (nema Kristófer) fengu páskaegg í morgunmat. Óðinn vissi ekki alveg hvað var að gerast, enda man hann ekkert eftir síðustu páskum, en hann var ótrúlega ánægður með páskaeggin sín. Við fengum okkur göngutúr niður í bæ. Það var markaður í bænum og svo fengu krakkarnir að leika sér smá á róló á leiðinni heim.

Sumir voru síðan mjög þreyttir eftir allt súkkulaðiátið og leikina...





En svo var kominn tími fyrir stórfjölskylduna að fara aftur heim til Íslands og þá hófst púsluspil við að pakka niður í töskurnar...



...en það hófst nú allt og svo lögðu þau af stað á fína bílnum.



Það var mjög tómlegt í Álmkoti í kvöld, við Óðinn vorum bara tvö að borða kvöldmatinn. Hann talar endalaust um að fara í flugvélina og heimsækja langamömmu. Það verður reyndar áfram gestkvæmt hjá okkur, því Auður ætlar að kíkja á föstudaginn og svo koma Mandy og Simon með krakkana og verða um helgina.

Wednesday 19 March 2008

Viva

Prófið gekk bara mjög vel á mánudaginn. Það voru engar hræðilegar spurningar og engar meiriháttar athugasemdir, þannig að ég held bara áfram við verkefnið. Alveg brilliant.

Sigga sys og fjölskylda eru komin í heimsókn. Þau eru búin að skoða búðirnar vel. Svo er mikið planað um helgina, en það verður samt að skoða hvað gerist með veðrið, það spáir snjókomu!

Sunday 16 March 2008

Dómsdagur á morgun!

Jæja, þá nálgast munnlega prófið. Ég hef verið að undirbúa mig um helgina, en það er ómögulegt að segja hversu erfitt prófið verður, það fer sennilega eftir því hversu gott vald ég hef á efninu...

Það er dagur St. Patricks á morgun, en hann er írskur dýrlingur, sem á að hafa dáið 17. mars. Það er mikið um hátíðarhöld af þessu tilefni og ég kíkti í eitt slíkt hóf í gærkvöldi. Dagurinn markast mikið af því að írar og vinir þeirra fagna og grænn litur er stór partur af því. Í veislunni í gærkvöldi voru allir beðnir um að vera í einhverju grænu. Þetta var stórskemmtilegt og mjög fyndið að sjá hvaða vænu grænu hluti fólk kom með. Það var t.d. nokkuð um græna kjóla, hárkollur, andlitsmálningu og allskonar aukahluti. Ég set kannski inn myndir frá partýinu við tækifæri. St. Patricks dagurinn er annars tengdur trúnni og er beðið fyrir trúboðum um allan heim. Þetta er líka dagur andlegrar endurnýjunar, ég vona bara að það eigi við í mínu tilfelli og að það komi rólegri tíð eftir daginn á morgun.

Annars rignir eldi og brennisteini hér í dag. Ég þurfti nánast gúmbát til að komast út úr húsi. Þetta er reyndar ágætt, ég var að spá í að vinna aðeins í garðinum, en því var aflýst sjálfkrafa vegna veðurs :)

Sigga sys og fjölskylda koma á morgun. Það spáir sem betur fer góðu veðri næstu þrjá daga, en það verður víst aðeins kaldara, eða um 10°C. Þau ættu nú vonandi að lifa það af, enda öllu vön að heiman ;)

Wednesday 12 March 2008

Einangrun lokið!

Jæja, við Óðinn komumst loksins í leikskóla og vinnu í dag, eftir hlaupabólueinangrun. Ég reyndar fékk að skreppa í Imperial College í gær til að halda fyrirlestur, en það telst varla með. Óðinn var mjög stoltur þegar hann sýndi vinunum allar bólurnar sínar. Það kom upp hugmynd um að tengja þær allar með strikum og þá myndi hann líta út eins og kóngulóarvefur... alvöru spiderman.

Ég er nú á fullu að undirbúa munnlega prófið á mánudaginn. Get ekki beðið eftir að klára það. Þau eru fjögur í dómnefndinni, hvert öðru gáfaðra. Þetta verður áhugavert. En það sagði einhver að ég ætti að líta á þetta sem tækifæri til að tala um verkefnið mitt og vinnuna mína endalaust við fólk sem yrði að hlusta á mig - hvort sem þeim langaði til eða ekki ;)

Svo er innan við vika í að Sigga sys og fjölskylda komi. Ég get ekki beðið og Óðinn er spenntur líka, þó hann kunni ekki að telja niður dagana.

Monday 10 March 2008

Aumingja barnið mitt!

Óðinn kom aftur heim í gærdag og ég fékk vægt taugaáfall. Hann er með svo miklar hlaupabólur að hann lítur út eins og nýreyttur kjúklingur, greyið. Hann er samt nokkuð hress, helst fúll yfir að fá ekki að fara út í óveðrið (get ekki sagt að það sé mjög slæmt hérna hjá okkur ennþá).

Hann þarf að vera heima aftur á morgun, svo það hafa staðið yfir miklar samningaviðræður til að finna út úr hver á að vera heima með hann. Ég er með fyrirlestur í háskólanum fyrir hádegi, svo pabbi hans ætlar að taka hann þá. Svo vona ég bara að hann verði orðinn nógu góður á miðvikudaginn!

Saturday 8 March 2008

Hlaupabóla, fyrirlestur og rússneskar pönnukökur

Það er búið að vera mikið um að vera undanfarna daga. Það byrjaði með að ég var kölluð í leikskólann á fimmtudaginn vegna þess að Óðinn var kominn með hlaupabólu í annað sinn. Ég stóð í þeirri trú að það væri bara hægt að fá hana einu sinni, en fór með hann til læknis og fékk þetta staðfest. Greyjið litla. Pabbi hans bauðst til að taka hann fyrir mig á föstudaginn, því ég var með fyrirlestur á lítilli ráðstefnu. Hann er síðan hjá pabba sínum um helgina og hlýtur að vera mjög veikur, því hann vill bara fá að sofa í sófanum. Mjög ólíkt mínum gaur að vera ekki á hlaupum.

Fyrirlesturinn gekk bara mjög vel, ég fékk mjög góða krítík, svo ég er bara ánægð með það.

Í gærkvöldi var síðan pönnukökuboð hjá rússneskri vinkonu minni. Það var pönnukökuvika í Rússlandi og hún var með allskonar pönnsur: pönnsur sem eru borðaðar með kjötsúpu (Borscht), blinis, kartöflupönnukökur, sítrónupönnukökur osfrv. Þessu var svo skolað niður með vodka af ýmsum gerðum! Ég er ekki mikið fyrir sterk vín, en gerði þessu öllu ágætis skil - og er að borga fyrir óhófið í dag...!!

En, no rest for the wicked, þarf að vinna svo ég geti verið heima með kútinn minn á mánudaginn :)

Tuesday 4 March 2008

Týpískur þriðjudagur

Get ekki sagt að neitt stórmerkilegt hafi gerst í dag. Fór með Óðinn til læknis í morgun og svo í klippingu. Greyjið, hann er frekar stutthærður núna, en alltaf jafn sætur samt. Ég kann ekki alveg á hvernig á að biðja um herraklippingar - eða að rakarinn var bara alls ekki að hlusta!


Var mestmegnis inni á labba að vinna í dag og gekk ágætlega. Almannatengsladeildin í vinnunni er svo greinilega búin að ákveða að ég sé opin fyrir að kynna vísindi fyrir almenning og ég fæ endalausar beiðnir um að taka að mér nema í starfskynningar, fara í skóla að tala, osfrv. Það er mjög gaman, en líka tímafrekt, svo ég er að reyna að halda þessu í lágmarki í bili. Nóg að gera samt...

Á morgun er síðan árlegur kvöldverður skordýrafræðinga í London og ég ætla að sjálfsögðu að mæta. Þetta verður fimmta árið sem ég mæti. Þarna verður samtíningur helstu pöddufræðinga Englands, ásamt erlendra gesta. Erlendu gestirnir fá alltaf sérstaka kynningu og klapp, en það er sama hvað ég reyni, ég fæ ekki að vera útlendingur lengur.

Jæja, þá er víst best að skella sér í bað og kannski raka á sér leggina. Planið er að vera í pilsi á morgun og ég vil síður að samkomugestir flækist í lappahárunum á mér þegar þeir ganga framhjá!

Monday 3 March 2008

Fiskabúr

Réttið upp hendi sem haldið að mér takist að halda fiskabúri gangandi!!!

Ég á von á fiskabúri á næstu dögum og pólskur samstarfsmaður ætlar að vera sérstakur ráðgjafi í uppsetningu og viðhaldi... Hvort mér takist að halda lífi í fiskunum sem ég fæ er svo annað mál. Ég hef allavega ekki mjög gott orðspor á mér með pottablóm sem deyja hvert af öðru. Kannski Óðinn hjálpi...

Wednesday 27 February 2008

Jarðskjálfti!

Það var jarðskjálfti hérna í gærnótt. Ég vaknaði við hann, en mig var að dreyma að ég væri heima í Sandvík, svo ég hélt að skjálftinn hefði bara verið partur af draumnum. Fólk var víst frekar skelkað, enda skjálftinn yfir 5 á Richter. Óðinn svaf þetta af sér, þessi snúður, og mætti ekki fyrr en hálfátta í morgun að vekja mig - svo við vorum aðeins sein fyrir í vinnu og leikskóla. Ég ætti kannski að fara að reiða mig meira á vekjaraklukkuna, ef hann ætlar að fara að vera svona morgunsvæfur...

Sunday 24 February 2008

Halló halló

Var að muna að ég er með þessa bloggsíðu... kannski kominn tími til að fara að láta heyra í sér aftur :)

Það er allt gott að frétta af okkur mæðginum. Ég skilaði af mér skýrslu til háskólans í lok janúar og er nú að undirbúa fyrirlestra og munnleg próf. Vinnan gengur bara ágætlega, alltaf nóg að gera. Blaðlýsnar láta ekkert sérstaklega vel að stjórn, en ég get ekki áfellst þær fyrir að gera ekki það sem ég vil. Víðitrén mín vaxa líka vel.

Óðinn er kátur. Hann fór í afmæli til vinar síns á laugardaginn. Það var haldið í húsdýragarði og krakkarnir fengu að klappa og koma við allskonar dýr, þ.á.m. hana, rottu, "chipmunk" (veit ekki hvað það kallast á íslenskunni) og kanínu. Ég var mjög stolt af Óðni, en honum tókst að sitja kyrrum í heilt korter á meðan dýrin gengu á milli krakkanna. Það hlýtur að vera met! Hann byrjar síðan á fótboltanámskeiði í apríl. Þetta er fyrir 3 - 5 ára krakka, en hann fær að vera með. Ég get varla beðið eftir að námskeiðið byrji, er viss um að honum á eftir að finnast gaman. Hann er alltaf að suða um að fá að fara í fótbolta!