Sunday 27 May 2007

Meiri ísl-enska

Ísl-enskan hjá Óðni er alveg frábær! Hér er nýjasta dæmið: Spider-ló = kónguló.

Thursday 24 May 2007

Chickenpox = hlaupabóla?

Nú er Óðinn greyjið kominn með hlaupabólu. Þær hringdu úr leikskólanum í dag og sögðu að hann væri komin með bólur á magann, svo ég þyrfti að sækja hann strax. Hann er mjög stoltur af þessum bólum og er endalaust að draga upp bolinn og sýna bólurnar á maganum. Við fórum til læknis og fengum staðfest að hann væri veikur, þannig að við verðum heima næstu daga. Ég fór í apótekið og keypti upp lagerinn af kremum og smyrslum til að koma í veg fyrir kláða. Þetta virðist reyndar ekki trufla hann mikið ennþá, sem betur fer. Ég vona bara að hann verði orðinn hress þegar við förum í fríið langþráða eftir rúma viku!

Tuesday 22 May 2007

Grænmetis- og ávaxtastríð

Það er magnað hvað Óðinn er þrjóskur. Hann alveg harðneitar að borða grænmeti og ávexti að undanskildum bönunum, sem honum finnst góðir. Ég er búin að prófa allt til að koma grænmeti ofan í hann, hrátt, soðið, maukað í súpur, skera í stóra bita, litla bita, bita sem eru í laginu eins og geimverur, lestar og eða Bubbi byggir. Það er sama saga með ávextina, hef prófað allar gerðir og stærðir. Reyndi að fela bitana í ís og súkkulaðisósu, en hann spýtir öllu útúr sér. Ég prófaði meira að segja ráðið frá henni systur minni að mauka þá og búa til frostpinna, en hann sagði bara "oj - mamma eat it!" á ísl-enskunni sinni. Við erum samt bæði jafn þrjósk, svo ég er ekkert að gefast upp. Þurfti bara aðeins að koma þessari frústrasjón frá mér.

Sunday 20 May 2007

Bland í poka

Það er orðið frekar langt síðan ég skrifaði síðast. Það er mikið að gera í vinnunni við rannsóknir og skýrsluskrif, en það er engin afsökun...

Það merkilegasta sem gerðist í síðustu viku var að sjálfur David Attenborough kom upp í vinnu og var að mynda skordýragildrur. Ég hitti hann því miður ekki, en sá átrúnaðargoðið í gegnum gluggann og fór síðan ásamt nokkrum starfsfélögum upp á þak að fylgjast með kvikmyndagerðinni.

Það var síðan foreldrafundur hjá mér í leikskólanum. Ég var frekar stressuð, leið eins og ég væri að fara í próf og að leikskólakennarinn hans væri að fara að dæma hæfileika mína til að vera foreldri. Þetta voru óþarfa áhyggjur og gekk allt vel, Óðinn er mjög duglegur og félagslyndur, svo þetta er allt í góðum málum.

Nú, svo var ráðstefna á fimmtudag og föstudag í vinnunni, þar sem allir doktorsnemarnir kynntu verkefnin sín. Ég var með veggspjald til sýnis eins og allir hinir fyrsta árs nemarnir. Þetta gekk bara vel og það var ágætt að fá smá pásu frá rannsóknarstofunni og skriftum, hitta hina nemana og sjá hvað aðrir eru að vinna við.

Helgin fór síðan í meiri vinnu og smá verslunarleiðangur. Ég er búin að kaupa svo mikla sólarvörn fyrir væntanlega sólarlandaferð að ég verð ábyggilega með yfirvigt bara af henni. Svo keypti ég blátt sólarvarnarstifti sem á að vera voða gott á andlit á börnum - aumingja Óðinn verður blár í framan í tvær vikur. En, við ættum allavega ekki að brenna...

Monday 14 May 2007

Evróvisjón update

Partýið á laugardaginn heppnaðist bara vel. Ég átti reyndar ekki von á hvað bresku vinir mínir tóku þetta allt alvarlega, sérstaklega stigagjöfina... hahaha. Það gekk ekki mjög vel hjá bretum þetta árið! Þau voru mjög hrifin af veitingunum, höfðu aldrei smakkað ostasalat eða túnfisksalat með eggjum og lauk ... hér er bara sett maískorn í túnfisksalatið. Óðni fannst líka rosa gaman að fá allt þetta fólk í heimsókn og var í essinu sínu. Skammtaði fólki snakk úr skálunum (það sem ekki hvarf ofan í hann sjálfan) og þurfti að sýna öllum allt dótið sitt og stígvélin.

Thursday 10 May 2007

Mini me!

Óðinn er farinn að herma allt eftir mér. Ég athuga alltaf hvort það sé slökkt á öllu áður en ég fer út á morgnana. Í morgun, þegar ég var búin að klæða hann í skóna og jakkann og var að leyta að bíllyklunum, ákvað hann að tékka á þessu fyrir mig og labbaði úr einu herbergi í annað og sagði: slökkt, slökkt, slökkt - alveg eins og ég geri alltaf. Svo mikil dúlla, ég var í algjöru kasti.

Wednesday 9 May 2007

Evróvisjón

Það verður Evróvisjón vaka hjá okkur frænkunum annaðkvöld. Ég ætla að fara yfir til Auðar með guttann og svo hvetjum við Eirík áfram.
Það er eins gott að hann komist í úrslitin. Ég er búin að bjóða nokkrum vinnufélögum í heimsókn að horfa á aðalkeppnina og hef verið með heldur stórar yfirlýsingar um að við vinnum ábyggilega í ár!

Óðinn sæti




Minn maður að leika sér að bílunum, allir í röð :)

Nú er maður kominn með stóru stráka rúm. Hann lærði að klifra upp úr rimlarúminu um helgina, svo ég verslaði fyrir hann rúm. Þetta er alveg ágætis rúm, hann var svo órólegur í gærnótt að ég endaði á að sofa mestalla nóttina uppí hjá honum...







Friday 4 May 2007

Vinnumaraþon framundan

Það er löng helgi hjá bretum þessa helgina, sem þýðir að það verður frí á mánudaginn. Óðinn er farinn með pabba sínum í bústað, svo ég stefni á vinnumaraþon við skýrsluskrif og er búin að vera að undirbúa það í allan dag. Ég tæmdi hillurnar á bókasafninu og er með svo margar greinar til að lesa að ég held þetta komist ekki allt í bílinn. Síðan er stefnt í búðina til að kaupa allt sem mér þykir best að borða og drekka. Að lokum fer ég heim, læsi mig inni og verð í sjálfskipaðri einangrun fram á mánudagskvöld... Nema náttúrulega ef eitthvað skemmtilegra býðst!

Það á að sýna "The Queen" í kvikmyndaklúbbnum í vinnunni í kvöld, svo ég ætla að skella mér að sjá hana.

Tuesday 1 May 2007

Nú eru góð ráð dýr!

Pítusósan er búin!
Við erum bæði háð því að fá pítu í matinn reglulega og píta er ekki píta nema til sé pítusósa. Ég sé bara tvo möguleika í stöðunni. Annaðhvort verð ég að skrifa manneldisráði breta og biðja um að hún verði sett í framleiðslu hér, eða ég verð að skreppa til Íslands að ná í brúsa. Það væri reyndar ágætishugmynd, því íslenska nammið er líka búið. Það væri kannski ráð að einhver af þessum íslensku viðskiptajöfrum sem alltaf er verið að fjalla um hérna setti upp sjoppu í London með íslensku góðgæti. Ég er viss um að það vekti mikla lukku - og þá gæti ég kannski fengið malt og appelsín líka.