Monday 28 April 2008

Mikill bömmer!

Ég mætti galvösk í vinnuna í morgun, en hefði betur sleppt því. Ég var varla búin að kveikja á tölvunni þegar ég frétti að víðitrén mín í gróðurhúsunum væru orðin loðin af blaðlúsum. Þetta er ekki gott því, a) þetta eru ekki "mínar" blaðlýs, heldur önnur tegund; b) nú get ég ekki notað trén í tilraunirnar, því þetta hefur áhrif á niðurstöðurnar og c) það tekur þrjá/fjóra mánuði að ný tré verði orðin nógu stór til að ég geti byrjað aftur.

Það er allur dagurinn búinn að fara í að reyna að finna lausn á þessu máli. Það þýðir ekkert að gráta Víði bónda alltof lengi (þó mig langaði mest að fara bara að skæla í morgun, var búin að plana stífa tilraunaviku) og það verður að redda þessu einhvernveginn. Það gæti verið komin hlutalausn í málið, svo ég geti haldið áfram, en ég kem samt til með að þurfa að endurtaka tilraunina :(

Helgin var mjög fín. Við Óðinn fórum í heimsókn til Kelly, Daegan og Theo á laugardaginn og komum tilbaka í gær. Það var alveg yndislegt veður á laugardeginum og við eyddum honum í garðinum hjá þeim, tíndum rabbabara í pæ og höfðum það notalegt.

Tuesday 22 April 2008

Brussel

Ég fór í heimsókn til Kristrúnar frænku minnar í Brussel og átti þar alveg frábæra helgi. Það var mikið borðað, drukkið og spjallað fram á nætur.

Ég ætlaði að setja inn myndir, en það gengur ekki í augnablikinu, svo ég læt bara nægja í bili að segja að þetta var alveg stórskemmtileg ferð.

Það var minna gaman að koma aftur í stressið í vinnunni... en það stendur til bóta ;)

Monday 14 April 2008

Duglegur strákur... + matur og meiri matur!

Óðinn tók upp á því í síðustu viku að smyrja rassakremi á sjónvarpið - afþví að það meiddi sig einhver í sjónvarpinu...! Grrr, það tók mig allt kvöldið að þrífa eftir hann og það er ennþá fituskán á sjónvarpinu. Þetta var samt mjög fagmannlega gert hjá honum.

Helgin var mjög fín, við vorum með gesti í hádegismat á laugardaginn. Það var vinur hans Óðins úr leikskólanum og foreldrar hans, þau vinna með mér. Við átum ótæpilega af kjúkling og fórum svo í góðan göngutúr og eyddum eftirmiðdeginum í að spjalla og hafa það notalegt. Strákarnir voru mjög glaðir að hittast líka og drógu fram allt dótið hans Óðins til að leika með, það var mjög gaman að fylgjast með þeim.


Óðinn hjálpaði mér líka að baka kryddbrauð fyrir alþjóðlega hlaðborðið í vinnunni. Það tókst bara ágætlega, brann allavega ekki við - og það veit enginn að það var ekki alveg jafn gott og hjá mömmu. Þetta var mikil veisla, við Óðinn smökkuðum á öllu. Honum fannst kúbverskt pastasalat best, en mér baunastappa frá Ghana með steiktum banönum. Namm.



Þetta er annað árið sem ég hef farið á hlaðborðið og ég ætla aftur á næsta ári. Það var mikið rætt um að fólk þyrfti að gefa upp uppskriftir af réttunum, því þeir voru hver öðrum gómsætari.






Tuesday 8 April 2008

Strumpur?

Ég fór að dæmi Maríu vinkonu minnar og tók strumpaprófið. Er ekki alveg viss um að strumpapersónuleikinn minn eigi við í veruleikanum (vil allavega ekki kannast við að vera "moody" hahaha), en ég læt öðrum eftir að dæma það... ;)


Hjálp!!!

Á sunnudaginn er aftur komið að alþjóðlega deginum þar sem fólk á að koma með eitthvað matarkyns frá sínu heimalandi. Í fyrra reyndi ég að baka kanilsnúða, en þeir misheppnuðust aðeins og voru eins og apalhraun undir tönn, svo ég fór ekki með þá. Ég tók þá í staðinn með mér smá söl og harðfisk, sem vöktu meiri athygli en lukku, svo ég get ekki gert það aftur.

Getur einhver gefið mér uppástungu að einhverju matarkyns sem ég get búið til og farið með. Nota bene, það má ekki vera mjög flókið, þá fer allt í kerfi hjá mér ;)

Monday 7 April 2008

Bíóferð

Ég skrapp í bíó í gærkvöldi, sem er kannski ekki í frásögur færandi, nema af því að ég fór í mjög skemmtilegt bíó.

http://www.therexcinema.com/

The Rex er í Berkhamsted og var gert upp fyrir nokkrum árum. Það er alltaf uppselt á sýningarnar hjá þeim, svo við vorum mjög heppnar að fá miða í gær. Aðalatriðið er nefnilega að maður situr í rauðum flauelsklæddum stólum við borð með kertaljósi. Það er bar og hægt að panta sér vín og osta, og það eru þjónar sem koma með þetta til manns. Algjör lúxus. Svona eiga bíó sko að vera! Annars var myndin ekkert spes, Ekki snerta öxina (Ne touches pas la hache), frönsk mynd sem var vægast sagt langdregin og pínu tilgerðarleg. En það gerði ekkert til í svona fallegu umhverfi :)

Takk fyrir commentin, alltaf gaman að heyra frá ykkur. Sendi þér póst við tækifæri Randý - Óðinn minn á líka afmæli 13. júlí.

Sunday 6 April 2008

Fyrsta fótboltaæfingin


Óðinn fór á fyrstu fótboltaæfinguna sína í gær. Hann var ótrúlega sætur í búningnum sínum og fannst mjög gaman, þó hann væri pínu feiminn til að byrja með.

Wednesday 2 April 2008

Myndir



Strákarnir fengu að fara út að hjóla í rigningunni, Harvey, Simon og Óðinn.





Það var mikið fjör að blása í ýlurnar. Mandy með Hönnu litlu, Harvey og Óðinn.



Við hittum farfugla í St. Albans á sunnudaginn. Kelly, Wayne, Auður og Biggi afmælisbarn. Biggi átti afmæli, held hann hafi orðið 23 ára! Er eiginlega alveg viss :)