Tuesday 17 June 2008

Frægð og frami ;o)

Það er mynd af mér á fréttasíðu Porter Alliance og í nýja bæklingnum þeirra. Þetta eru samstarfsaðilar okkar, en þeir hafa samt ekkert með verkefnið mitt að gera - og ég hef ekki hugmynd afhverju þeir settu mynd af mér... held það hafi verið af því að ljósmyndarinn var svo ánægður með rauðu peysuna mína sem mótvægi við græn laufin á trjánum. Mjög vísindalegt allt saman.

Monday 16 June 2008

Afmælisplön og fleira

Ég er búin að sitja við boðskortaskriftir í kvöld. Ég ætla að halda upp á afmælið hans Óðins 13. júlí og nú eru allir beðnir að biðja til veðurfræðinganna um sól og gott veður! Planið er að vera með liðið úti í garði, leigja hoppukastala, fara í kónga og aðra leiki. Það var frekar erfitt að takmarka gestalistann, svo þetta verða kannski of margir, en það hlýtur að reddast ... vona bara að það rigni ekki, því það er ekki pláss fyrir alla inni hjá okkur. Óðinn er mjög spenntur og talar um afmælið sitt á hverjum degi. Nú verð ég að standa mig og byrja að eyða brenninettlum úr garðinum og merkja kanínuholurnar, svo fólk hrynji ekki ofan í þær!

Óðinn er mikill athafnamaður og var alls ekki á því að við ættum að vera neitt inni við í dag, því við þyrftum sko að vinna í garðinum - "because it´s not growing properly!". Ég verð að segja að ræktin í garðinum er svo góð að ég heyri "blessað" grasið vaxa, að ekki sé talað um arfann út um allt. Hann er líka búinn að suða svo lengi um að við setjum upp matardall fyrir fuglana, að ég lét það loksins eftir honum í dag. Svo stóð hann fyrir neðan greyjið og kallaði hástöfum á fuglana að hann væri búinn að setja út hádegismat fyrir þá, en skildi svo ekkert í að þeir flokkuðust ekki til hans.

Það er líka búið að vera nóg að gera undanfarið og gaman. Auður kíkti í heimsókn um helgina, og við áttum góða daga saman frænkurnar. Svo er mamma að koma á miðvikudaginn og pabbi væntanlegur fljótlega á eftir henni. Alltaf nóg að gera og skemmtilegt í Álmkoti!

Tuesday 10 June 2008

Hér er búin að vera alveg ótrúleg blíða síðan á föstudag, ég er búin að draga fram sumarfötin og þurfti að slást við að slá blettinn líka. Grasið náði í mitti (á Óðni) og ég held ég hafi gert útaf við sláttuvélina...

Annars er það helst að frétta að Óðinn datt niður stigann á föstudagskvöldið, frá toppi og alla leið niður. Þetta leit mjög illa út, þar sem hann fór með höfuðið á undan, en hann slapp nokkuð heill frá þessu. Við fórum upp á slysó til að láta athuga hvort það væri allt í lagi. Honum fannst það mjög spennandi, en mér fannst það síður, föstudagskvöld á slysavarðstofum eru ekki fyrir börn! Þegar ég fór að ræða þessar ófarir við vini og kunningja, þá er þetta eitt það algengasta sem börn (og fullorðnir) slasa sig á hér, enda stigar í flestum húsum í Bretlandi. Allavega, þá verða hliðin áfram fyrir stiganum hjá okkur og Óðinn fær ekki lengur að fara einn upp og niður.

Já og ég er líka loksins búin að bóka sumarfríið. Við komum heim 15. júlí og verðum í tvær vikur!

Thursday 5 June 2008

Fiðrildi

Við Óðinn rekum fiðrildagildru í garðinum þessa vikuna. Þetta er ljósgildra sem fiðrildin (moths) safnast að yfir nóttina og við tökum þau lifandi og setjum í búr. Það stendur yfir svokölluð "smádýravika" í vinnunni, en þá koma skólahópar að hitta vísindamenn/konur og við förum með þau í víðavangsferðir, þar sem við söfnum hryggleysingjum fyrir þau að skoða. Við erum líka með stórt búr sem þau fá að fara inn í og þar eru fiðrildin sem við Óðinn söfnum. Þetta hefur gengið alveg stórvel hjá okkur, Óðinn er mikill veiðimaður. Það varð reyndar smá óhapp fyrsta morguninn, ég var alveg að verða búin að tæma gildruna þegar Óðinn fór að segja mér frá fljúgandi "býflugum" ... hann hafði opnað búrið og hálfur fengurinn hafði sloppið! En hann er mjög passasamur með þetta síðan þá og veit alveg hvernig á að fara að þessu - og þekkir muninn á býflugum og fiðrildum!!!





Hérna er strákurinn mjög stoltur með litla búrið við hliðina á ljósgildrunni.