Sunday, 16 March 2008

Dómsdagur á morgun!

Jæja, þá nálgast munnlega prófið. Ég hef verið að undirbúa mig um helgina, en það er ómögulegt að segja hversu erfitt prófið verður, það fer sennilega eftir því hversu gott vald ég hef á efninu...

Það er dagur St. Patricks á morgun, en hann er írskur dýrlingur, sem á að hafa dáið 17. mars. Það er mikið um hátíðarhöld af þessu tilefni og ég kíkti í eitt slíkt hóf í gærkvöldi. Dagurinn markast mikið af því að írar og vinir þeirra fagna og grænn litur er stór partur af því. Í veislunni í gærkvöldi voru allir beðnir um að vera í einhverju grænu. Þetta var stórskemmtilegt og mjög fyndið að sjá hvaða vænu grænu hluti fólk kom með. Það var t.d. nokkuð um græna kjóla, hárkollur, andlitsmálningu og allskonar aukahluti. Ég set kannski inn myndir frá partýinu við tækifæri. St. Patricks dagurinn er annars tengdur trúnni og er beðið fyrir trúboðum um allan heim. Þetta er líka dagur andlegrar endurnýjunar, ég vona bara að það eigi við í mínu tilfelli og að það komi rólegri tíð eftir daginn á morgun.

Annars rignir eldi og brennisteini hér í dag. Ég þurfti nánast gúmbát til að komast út úr húsi. Þetta er reyndar ágætt, ég var að spá í að vinna aðeins í garðinum, en því var aflýst sjálfkrafa vegna veðurs :)

Sigga sys og fjölskylda koma á morgun. Það spáir sem betur fer góðu veðri næstu þrjá daga, en það verður víst aðeins kaldara, eða um 10°C. Þau ættu nú vonandi að lifa það af, enda öllu vön að heiman ;)

1 comment:

Anonymous said...

Vona að prófið hafi gengið vel!!!