Monday 31 March 2008

Gestagangur

Við fengum fullt af gestum um helgina. Auður var á landinu og kíkti á föstudagskvöldið. Það var frábært að hitta hana og ég verð að segja að ég sakna þess mikið að hafa þau í St. Albans. En, þau eru ánægð á Íslandinu góða, svo ég er að sjálfsögðu ánægð fyrir þeirra hönd (þó sjálfselskupúkinn segi að það væri nú betra að hafa þau hérna...).

Á laugardaginn komu Mandy og Simon með krakkana frá Manchester. Harvey, strákurinn þeirra, og Óðinn eru góðir félagar og léku sér vel saman, fyrir utan nokkra árekstra þar sem báðir vildu leika með sama dótið. Hannah, litla stelpan þeirra er 5 mánaða og algjört krútt. Hún bara brosti og var glöð, þessi elska. Við eyddum laugardegi og fyrriparti af sunnudegi í að borða, drekka, og borða meira. Það þurfti líka að viðra rokið úr nefinu á strákunum, svo við fórum með þá út á hjólunum. Óðni tókst að detta í stóran poll og var alveg gegnblautur, þetta var mjög flott fall, hann flaug alveg af hjólinu.

Við Óðinn kíktum síðan á kránna að hitta Auði, Bigga, Wayne og Kelly þegar Manchesterfjölskyldan var farin á sunnudaginn. Biggi átti afmæli og fékk þetta líka fína afmælisveður, sól og blíðu! Um kvöldið komu síðan vinnufélagar í heimsókn til að baka með mér köku fyrir góðgerðasöfnun í vinnunni í dag. Mín kaka brann reyndar upp til agna ... ég baka víst bara vandræði, eins og pabbi sagði einhverntíma ;-)

Wednesday 26 March 2008

Páskar

Það var mikið fjör um páskana, þrátt fyrir versta páskaveður í Englandi í manna minnum. Sigga og fjölskylda komu til okkar og voru í tíu daga. Það var mikið brallað og alltaf nóg um að vera, enda fjögur börn á heimilinu... Reyndar getur Guðrún Sunna varla kallast barn lengur og hún er líka svo þæg og góð ;)


Við fórum og hittum Tomma togvagn og félaga á föstudaginn. Það var alveg ískalt og brjálað rok, en við létum okkur hafa það. Óðinn var ekki í besta skapi og tók flotta aríu á veitingastaðnum, en honum fannst mjög gaman eftirá. Þarna var líka alveg afpsyrnulélegur töframaður með sýningu, verst að hafa ekki tekið mynd af kallinum, hann var alveg í sérflokki!



Við fengum okkur rúnt í Tomma togvagni. Hann fór nú ekki langt, bara fram og tilbaka, ca 500 metra eða svo í beina línu. En, það var farið tvær ferðir með okkur, svo þetta tók nú alveg korter og það var allavega logn inni í vagninum.





Við fórum í boltaland á laugardaginn. Þórhildur og Óðinn hlupu strax í sitthvora áttina og það þurfti þrjá fullorðna til að fylgja þeim eftir. Kristófer fékk að fara í boltapyttinn og við fórum öll nokkrar bunur í rennibrautinni.






Við áttum notalegan páskadag. Það snjóaði meira og minna allan daginn. Krakkarnir (nema Kristófer) fengu páskaegg í morgunmat. Óðinn vissi ekki alveg hvað var að gerast, enda man hann ekkert eftir síðustu páskum, en hann var ótrúlega ánægður með páskaeggin sín. Við fengum okkur göngutúr niður í bæ. Það var markaður í bænum og svo fengu krakkarnir að leika sér smá á róló á leiðinni heim.

Sumir voru síðan mjög þreyttir eftir allt súkkulaðiátið og leikina...





En svo var kominn tími fyrir stórfjölskylduna að fara aftur heim til Íslands og þá hófst púsluspil við að pakka niður í töskurnar...



...en það hófst nú allt og svo lögðu þau af stað á fína bílnum.



Það var mjög tómlegt í Álmkoti í kvöld, við Óðinn vorum bara tvö að borða kvöldmatinn. Hann talar endalaust um að fara í flugvélina og heimsækja langamömmu. Það verður reyndar áfram gestkvæmt hjá okkur, því Auður ætlar að kíkja á föstudaginn og svo koma Mandy og Simon með krakkana og verða um helgina.

Wednesday 19 March 2008

Viva

Prófið gekk bara mjög vel á mánudaginn. Það voru engar hræðilegar spurningar og engar meiriháttar athugasemdir, þannig að ég held bara áfram við verkefnið. Alveg brilliant.

Sigga sys og fjölskylda eru komin í heimsókn. Þau eru búin að skoða búðirnar vel. Svo er mikið planað um helgina, en það verður samt að skoða hvað gerist með veðrið, það spáir snjókomu!

Sunday 16 March 2008

Dómsdagur á morgun!

Jæja, þá nálgast munnlega prófið. Ég hef verið að undirbúa mig um helgina, en það er ómögulegt að segja hversu erfitt prófið verður, það fer sennilega eftir því hversu gott vald ég hef á efninu...

Það er dagur St. Patricks á morgun, en hann er írskur dýrlingur, sem á að hafa dáið 17. mars. Það er mikið um hátíðarhöld af þessu tilefni og ég kíkti í eitt slíkt hóf í gærkvöldi. Dagurinn markast mikið af því að írar og vinir þeirra fagna og grænn litur er stór partur af því. Í veislunni í gærkvöldi voru allir beðnir um að vera í einhverju grænu. Þetta var stórskemmtilegt og mjög fyndið að sjá hvaða vænu grænu hluti fólk kom með. Það var t.d. nokkuð um græna kjóla, hárkollur, andlitsmálningu og allskonar aukahluti. Ég set kannski inn myndir frá partýinu við tækifæri. St. Patricks dagurinn er annars tengdur trúnni og er beðið fyrir trúboðum um allan heim. Þetta er líka dagur andlegrar endurnýjunar, ég vona bara að það eigi við í mínu tilfelli og að það komi rólegri tíð eftir daginn á morgun.

Annars rignir eldi og brennisteini hér í dag. Ég þurfti nánast gúmbát til að komast út úr húsi. Þetta er reyndar ágætt, ég var að spá í að vinna aðeins í garðinum, en því var aflýst sjálfkrafa vegna veðurs :)

Sigga sys og fjölskylda koma á morgun. Það spáir sem betur fer góðu veðri næstu þrjá daga, en það verður víst aðeins kaldara, eða um 10°C. Þau ættu nú vonandi að lifa það af, enda öllu vön að heiman ;)

Wednesday 12 March 2008

Einangrun lokið!

Jæja, við Óðinn komumst loksins í leikskóla og vinnu í dag, eftir hlaupabólueinangrun. Ég reyndar fékk að skreppa í Imperial College í gær til að halda fyrirlestur, en það telst varla með. Óðinn var mjög stoltur þegar hann sýndi vinunum allar bólurnar sínar. Það kom upp hugmynd um að tengja þær allar með strikum og þá myndi hann líta út eins og kóngulóarvefur... alvöru spiderman.

Ég er nú á fullu að undirbúa munnlega prófið á mánudaginn. Get ekki beðið eftir að klára það. Þau eru fjögur í dómnefndinni, hvert öðru gáfaðra. Þetta verður áhugavert. En það sagði einhver að ég ætti að líta á þetta sem tækifæri til að tala um verkefnið mitt og vinnuna mína endalaust við fólk sem yrði að hlusta á mig - hvort sem þeim langaði til eða ekki ;)

Svo er innan við vika í að Sigga sys og fjölskylda komi. Ég get ekki beðið og Óðinn er spenntur líka, þó hann kunni ekki að telja niður dagana.

Monday 10 March 2008

Aumingja barnið mitt!

Óðinn kom aftur heim í gærdag og ég fékk vægt taugaáfall. Hann er með svo miklar hlaupabólur að hann lítur út eins og nýreyttur kjúklingur, greyið. Hann er samt nokkuð hress, helst fúll yfir að fá ekki að fara út í óveðrið (get ekki sagt að það sé mjög slæmt hérna hjá okkur ennþá).

Hann þarf að vera heima aftur á morgun, svo það hafa staðið yfir miklar samningaviðræður til að finna út úr hver á að vera heima með hann. Ég er með fyrirlestur í háskólanum fyrir hádegi, svo pabbi hans ætlar að taka hann þá. Svo vona ég bara að hann verði orðinn nógu góður á miðvikudaginn!

Saturday 8 March 2008

Hlaupabóla, fyrirlestur og rússneskar pönnukökur

Það er búið að vera mikið um að vera undanfarna daga. Það byrjaði með að ég var kölluð í leikskólann á fimmtudaginn vegna þess að Óðinn var kominn með hlaupabólu í annað sinn. Ég stóð í þeirri trú að það væri bara hægt að fá hana einu sinni, en fór með hann til læknis og fékk þetta staðfest. Greyjið litla. Pabbi hans bauðst til að taka hann fyrir mig á föstudaginn, því ég var með fyrirlestur á lítilli ráðstefnu. Hann er síðan hjá pabba sínum um helgina og hlýtur að vera mjög veikur, því hann vill bara fá að sofa í sófanum. Mjög ólíkt mínum gaur að vera ekki á hlaupum.

Fyrirlesturinn gekk bara mjög vel, ég fékk mjög góða krítík, svo ég er bara ánægð með það.

Í gærkvöldi var síðan pönnukökuboð hjá rússneskri vinkonu minni. Það var pönnukökuvika í Rússlandi og hún var með allskonar pönnsur: pönnsur sem eru borðaðar með kjötsúpu (Borscht), blinis, kartöflupönnukökur, sítrónupönnukökur osfrv. Þessu var svo skolað niður með vodka af ýmsum gerðum! Ég er ekki mikið fyrir sterk vín, en gerði þessu öllu ágætis skil - og er að borga fyrir óhófið í dag...!!

En, no rest for the wicked, þarf að vinna svo ég geti verið heima með kútinn minn á mánudaginn :)

Tuesday 4 March 2008

Týpískur þriðjudagur

Get ekki sagt að neitt stórmerkilegt hafi gerst í dag. Fór með Óðinn til læknis í morgun og svo í klippingu. Greyjið, hann er frekar stutthærður núna, en alltaf jafn sætur samt. Ég kann ekki alveg á hvernig á að biðja um herraklippingar - eða að rakarinn var bara alls ekki að hlusta!


Var mestmegnis inni á labba að vinna í dag og gekk ágætlega. Almannatengsladeildin í vinnunni er svo greinilega búin að ákveða að ég sé opin fyrir að kynna vísindi fyrir almenning og ég fæ endalausar beiðnir um að taka að mér nema í starfskynningar, fara í skóla að tala, osfrv. Það er mjög gaman, en líka tímafrekt, svo ég er að reyna að halda þessu í lágmarki í bili. Nóg að gera samt...

Á morgun er síðan árlegur kvöldverður skordýrafræðinga í London og ég ætla að sjálfsögðu að mæta. Þetta verður fimmta árið sem ég mæti. Þarna verður samtíningur helstu pöddufræðinga Englands, ásamt erlendra gesta. Erlendu gestirnir fá alltaf sérstaka kynningu og klapp, en það er sama hvað ég reyni, ég fæ ekki að vera útlendingur lengur.

Jæja, þá er víst best að skella sér í bað og kannski raka á sér leggina. Planið er að vera í pilsi á morgun og ég vil síður að samkomugestir flækist í lappahárunum á mér þegar þeir ganga framhjá!

Monday 3 March 2008

Fiskabúr

Réttið upp hendi sem haldið að mér takist að halda fiskabúri gangandi!!!

Ég á von á fiskabúri á næstu dögum og pólskur samstarfsmaður ætlar að vera sérstakur ráðgjafi í uppsetningu og viðhaldi... Hvort mér takist að halda lífi í fiskunum sem ég fæ er svo annað mál. Ég hef allavega ekki mjög gott orðspor á mér með pottablóm sem deyja hvert af öðru. Kannski Óðinn hjálpi...