Saturday, 8 March 2008

Hlaupabóla, fyrirlestur og rússneskar pönnukökur

Það er búið að vera mikið um að vera undanfarna daga. Það byrjaði með að ég var kölluð í leikskólann á fimmtudaginn vegna þess að Óðinn var kominn með hlaupabólu í annað sinn. Ég stóð í þeirri trú að það væri bara hægt að fá hana einu sinni, en fór með hann til læknis og fékk þetta staðfest. Greyjið litla. Pabbi hans bauðst til að taka hann fyrir mig á föstudaginn, því ég var með fyrirlestur á lítilli ráðstefnu. Hann er síðan hjá pabba sínum um helgina og hlýtur að vera mjög veikur, því hann vill bara fá að sofa í sófanum. Mjög ólíkt mínum gaur að vera ekki á hlaupum.

Fyrirlesturinn gekk bara mjög vel, ég fékk mjög góða krítík, svo ég er bara ánægð með það.

Í gærkvöldi var síðan pönnukökuboð hjá rússneskri vinkonu minni. Það var pönnukökuvika í Rússlandi og hún var með allskonar pönnsur: pönnsur sem eru borðaðar með kjötsúpu (Borscht), blinis, kartöflupönnukökur, sítrónupönnukökur osfrv. Þessu var svo skolað niður með vodka af ýmsum gerðum! Ég er ekki mikið fyrir sterk vín, en gerði þessu öllu ágætis skil - og er að borga fyrir óhófið í dag...!!

En, no rest for the wicked, þarf að vinna svo ég geti verið heima með kútinn minn á mánudaginn :)

No comments: