Thursday 29 November 2007

Áfangasigur

Óðinn borðaði fimm grænar baunir og þrjá gulrótabita í gærkvöldi!

(og ég borðaði u.þ.b. hálft kíló af grænum baunum og fimmtíu gulrætur á meðan ég var að hvetja hann til dáða)

Wednesday 28 November 2007

Vísindi ... ?

Það er ótrúlegt hvað maður leggur á sig í nafni vísindanna. Ég er búin að sitja núna í tvo tíma og tína lappir af blaðlúsum með töngum. Blaðlýsnar eru innan við 5 mm á lengd og þetta er hrikaleg nákvæmnisvinna, verra en þegar maður var að ná upp lykkjum í saum í gamla daga. Ég minnist þess aldrei að hafa togað lappir eða vængi af skordýrum sem barn og finnst hálfhallærislegt að vera að byrja á þessu núna. Málið er bara að það virðist vera of mikið af aukakvikindum í búknum á dýrunum, svo ég næ ekki hreinu blaðlúsa-erfðaefni þaðan og þess vegna er ég að standa í þessu veseni. En þetta gerir sig ekki sjálft, svo það er eins gott að halda áfram í allavega aðra tvo tíma.

Sunday 25 November 2007

Jólaball

Við fórum á jólaballið hjá Íslendingafélaginu í gær. Þegar við keyptum lestarmiðann inn til London tilkynnti Óðinn afgreiðslumanninum og öllum í röðinni að hann væri að fara í flugvél. Aumingja maðurinn varð frekar kjánalegur, en gaf Óðni miða í litlu plastumslagi til að halda á, hann var svo stoltur með miðann sinn og hélt á honum alla leiðina. Jólaballið var mjög skemmtilegt, frábærar veitingar og gaman að hitta fólk sem ég hafði ekki séð lengi. Óðinn var rosalega spenntur. Það voru svo margir krakkar og þegar hann sá að þau voru að hlaupa um, tók hann sig til og hljóp um allt líka. Hann var kominn á algjöran yfirsnúning þegar jólasveinninn kom, svo ég ákvað að drífa mig heim, þannig að hann fékk ekkert nammi greyjið (og ekki ég heldur).

Tuesday 20 November 2007

Klúður!

Var að horfa á fréttirnar og Barnabótaskrifstofan er búin að týna diski með persónuupplýsingum um alla barnabótaþega í Bretlandi - mínum líka!!! Það er eins gott að kíkja á bankareikninginn og athuga hvort allar milljónirnar séu ennþá á sínum stað... En grínlaust, hverjum dettur í hug að senda disk með svona upplýsingum í venjulegum pósti, ekki einu sinni ábyrgðarpósti. Það er ekki eins og póstþjónustan hérna sé rómuð fyrir skilvirkni.

PS. Er búin að laga commentin, það þarf ekki lengur að skrá sig inn til að láta heyra í sér :)

Tuesday 13 November 2007

Nýju fötin Óðins

Það var mikið fjör hjá okkur um helgina. Við fórum í húsdýragarðinn, bökuðum kökur, hjóluðum í rigningunni, keyptum fullt af barnabókum á bókamarkaði og héldum vöfflupartý.


Ein bókin sem við keyptum er um Lólu sem borðar ekki grænmeti og alls ekki tómata. Þetta er nú uppáhaldsbókin hans Óðins, hann er svo hjartanlega sammála Lólu um að grænmeti sé vont - og skilur ekkert í því að hún láti á endanum plata sig til að borða svona ógeð.


Skelli inn mynd sem var tekin um helgina af mínum í nýja 66°Norður gallanum sínum. Ekta íslendingur ;)


Tuesday 6 November 2007

Flugeldar

Óðinn er mikill flugeldaaðdáandi þessa dagana. Það er alltaf brennu- og flugeldahátíð hérna 5. nóvember, til að halda upp á að einhver reyndi að brenna niður þinghúsið fyrir nokkuð mörgum árum. Ég skil ekki alveg afhverju er haldið upp á þetta með brennum, en þeir eru stundum skrítnir bretarnir (og ég ætti kannski að kynna mér söguna líka).

Nema hvað, minn maður er alveg ólmur í flugelda, þ.e.a.s. ef þeir eru í nógu mikilli fjarlægð og leikur flugeldasýningar í gríð og erg, bæði heima og í leikskólanum.

Monday 5 November 2007

Fín helgi

Það var nóg að gera í félagslífinu um helgina. Á föstudaginn fór rannsóknargrúppan mín út að borða og á kránna í nágrannabænum St. Albans. Þetta var mikill viðburður og nördasamkoma, enda ekki oft sem okkur er hleypt öllum í einu út úr tilraunastofunni.

Ég eyddi síðan helginni í London, fór í leikhús, í Tate Modern að skoða tilbúna jarðskjálftasprungu og kíkti í kaffi í kjallaranum á St. Pauls kirkjunni.

Jemma og Nick kíktu svo í kaffi í gærkvöldi. Þau bjuggu í Ameríkulandi í nokkur ár og ferðuðust mikið um þar. Ég var svo spennt yfir öllum ferðasögunum að nú er planið að fara í frí þangað, leigja sér risastóran amerískan húsbíl (svo Óðinn geti leikið sér afturí) og fara á rúntinn. En fyrst þarf ég væntanlega að skrifa breska rannsóknarsjóðnum og biðja um launahækkun!