Sunday 22 July 2007

Kjötsúpa

Ég gleymdi að segja ykkur frá því sem gerðist á ráðstefnunni sem ég var á í Edinborg um daginn. Ráðstefnugestum var boðið í veglegan kvöldverð eitt kvöldið og í forrétt var ekkert annað en dýrindis kjötsúpa! Ég trúði varla mínum eigin augum og/eða bragðlaukum, súpan var nákvæmlega eins! Þeir kalla hana kindasúpu (soup of mutton). Þegar ég fór að tala um þetta við hina innfæddu, þá kom í ljós að það er margt líkt með matarvenjum skota og íslendinga... vona bara að ég sé ekki sú eina sem hafi ekki vitað þetta. Annars var þetta fín ráðstefna. Því miður var lítill tími til að skoða borgina, en það sem ég sá leist mér mjög vel á, svo maður verður að kíkja þangað aftur við tækifæri.

Húsdýragarður

Við Óðinn fengum okkur ársmiða í húsdýragarðinn í dag. Þeir eru með allskonar dýr, hoppukastala, trampólín, hringekjur og leiksvæði. Óðni finnst mjög gaman að hoppa í kastalanum og á trampólíninu og lætur alltaf fylgja með hljóð... boing boing boing, me hoppa now!

Það var frekar erfitt að ná kengúrubarninu í mynd:







Thursday 19 July 2007

Tveggja ára!

Þá er strákurinn orðinn tveggja ára!
Hann var mjög ánægður með kökuna og pakkana.
Takk fyrir okkur...




Saturday 7 July 2007

Ég fékk bréf í póstinum í dag frá Tesco sem er kannski ekki í frásögur færandi, nema hvað þeir virðast hafa gert smá mistök. Þetta var hluti af markaðsátaki hjá þeim og þar sem ég er með "vildarkort" hjá þeim senda þeir manni öðru hverju auglýsingar eða prufur sem þeir halda að maður hafi gagn og gaman af. Nema hvað, í dag fékk ég glænýja "Gillette Fusion", fimm blaða karlmannsraksköfu með bartskera! Þar sem þeir nota upplýsingar um hvað maður hefur verslað í búðinni til að ákveða hvaða glaðning þeir senda manni veit ég ekki alveg hvernig ég á að taka þessu. Annaðhvort hefur einhver starfsmaðurinn talið að ég væri óeðlilega loðin í framan og ákveðið að setja mig á útsendingarlistann, eða að þeir halda að Óðinn sé svona þroskaður eftir aldri!

... eða kannski eru þeir að benda mér á að ég eigi að fara að gera eitthvað í þessu karlmannsleysi ;o)

Friday 6 July 2007

Dýragarður

Við stelpurnar í mömmuklúbbnum mínum hittumst með krakkana í Whipsnade dýragarðinum í dag, í tilefni af því að þau eru öll að verða tveggja ára. Það gátu sjö af níu stelpum mætt með krakkana og það var mjög gaman. Við eyddum öllum deginum í að skoða dýrin, fara með krakkana í leiktækin og fara í lestarferð um garðinn. Þetta var bara alveg frábært - og rosalega gott að sjá að það eiga fleiri börn sem stoppa aldrei....!

Thursday 5 July 2007

Viva

Ég fór í fyrsta viva´ð (munnlega prófið) á þriðjudaginn og gekk ágætlega, umsögnin frá prófdómurunum var allavega góð, svo ég verð ekki rekin í bili ;)

Við Óðinn erum í fríi á morgun og ætlum að fara að hitta alla krakkana í mömmuklúbbnum mínum, þau eiga öll afmæli núna, svo það er búið að plana afmælisferð í dýragarðinn. Ég vona bara að það rigni ekki á okkur...

Monday 2 July 2007

Bilað epli!

Óðinn vildi endilega fá epli eftir morgunmatinn í morgun. Hann borðar ekki epli frekar en aðra ávexti, en ég lét hann hafa eitt epli til að athuga hvað myndi gerast. Hann reyndi að naga það í nokkrar mínútur, en náði ekki að bíta í gegnum skinnið, svo hann rétti mér það aftur og sagði að það væri bilað!