Monday 29 October 2007

Grímuball

Hey hó

Ég var með barnapíur á föstudaginn og skrapp á Hrekkjavökuball. Ég fékk búning lánaðan hjá vinkonu minni og það fylgdi með andlitsmálning. Óðinn var mjög hissa þegar ég byrjaði að mála á mig andlitið og er ennþá að tala um þegar mamma var "tiger".


Bara að taka fram að blómaskreytingin var ekki hluti af búningnum! Það var mjög gaman á ballinu og flott að fá að sofa út líka... ;)

Friday 26 October 2007

Barnapíur ;)

Mamma og pabbi komu í heimsókn í gær. Óðinn var mjög kátur og má ekki af afa sínum sjá. Ég ætla síðan að nýta mér þetta og skreppa á grímuball í kvöld, er búin að fá lánaðann þennan fína tígrisdýrabúning, með rófu og allt.

Wednesday 24 October 2007

Airbrushed Óðinn!

Það var myndataka í leikskólanum hjá Óðni í gær. Þetta er árlegur viðburður til að hjálpa manni við að losna við peninga ... maður getur náttúrulega ekki látið myndir af barninu sínu liggja ókeyptar. Nema hvað, minn maður datt af hjólinu á föstudaginn og var enn með marblett og hrúður á miðju enninu, svo ljósmyndarinn bauðst til að laga það á myndunum. Alveg eins og alvöru fyrirsæta.

Það væri nær að ég fengi smá aðstoð við að laga myndir af mér...

Monday 22 October 2007

Góð mamma

Óðinn var mjög ánægður með mömmu sína í kvöld. Ég keypti handa honum sængurver með myndum af Tomma togvagni og minn hefur aldrei verið eins fljótur að fara að sofa! Nú liggur hann steinsofandi og faðmar sængina og Tomma sinn. Sætt.

Saturday 20 October 2007

Nöldur



Ég þarf nauðsynlega að fá útrás fyrir smá nöldur og þar sem það er enginn nálægt þá geri ég það bara hér í staðinn.


Málið er að ég mætti hér galvösk í vinnuna á hádegi og er að semja fyrirlestur sem ég á að halda hér á rannsóknarstöðinni á fimmtudaginn. Það er svo sem ekkert merkilegt við það, nema að þegar maður er að vinna utan "venjulegs" vinnutíma, þá þarf maður að skrá sig inn í sérstöku forriti í tölvunni. Þar setur maður inn hver maður er, hvar á stöðinni maður ætlar að vinna og hvenær maður ætlar heim. Ekkert mál. Nema hvað að þegar maður er búinn að þessu, þá birtist stór klukka neðst hægra meginn á skjánum og byrjar að telja niður! Og það er ekki hægt að slökkva á henni! Þetta er alveg hrikalega pirrandi!!! Ég ætlaði að vinna í sex tíma og fara svo kannski að hitta vini og horfa á úrslitin í rúgbí heimsmeistarakeppninni, en það er bara ekki vinnufriður fyrir þessari helv klukku! Maður fær í magann í hvert skipti sem maður lítur á hana, líður eins og maður hafi ekki áorkað neinu, þegar sekúndurnar teljast niður hver af annarri og allt í einu á maður minna en þrjá tíma eftir í vinnunni.


Ég geri mér grein fyrir að það er pínulítið fáránlegt að vera að ergja sig á þessu, en hin hliðin á vandamálinu er að klukkan hylur skjáinn neðst hægra megin, svo ég get ekki flett skjölum venjulega heldur.


GGGGRRRRRRRR! Ógeðslega pirruð!

Líður samt betur eftir að hafa komið þessu frá mér :)

Wednesday 10 October 2007

Það er meira hvað ég er búin að vera löt við að skrifa á þessa síðu. Kenni önnum um, en maður getur nú alltaf fundið smástund hér og þar.

Við mæðgin skruppum í leyniferð til Íslands um daginn. Þar voru mikil veisluhöld, afmæli og skírn, og við komum bæði talsvert mýkri tilbaka til Englands.

Óðinn er hress. Við keyptum dvd með Samma brunaverði og hann horfir á hann stanslaust - nema þegar Tommi togvagn kemst í spilarann. Hann er búinn að læra hvernig á að skipta um disk, þannig að ég hef engin völd.

Ég er á fullu í útivinnu. Þarf að ná gögnum áður en víðirinn fellir laufin og blaðlýsnar hverfa. Þetta getur verið mjög spennandi, sérstaklega eins og í dag þegar ég kraup óvart á geitungi. Hann var sem betur fer of sljór til að stinga mig greyjið.