Sunday 19 October 2008

!!!

Ég fékk að gjöf frá ágætisvini mínum bók sem heitir: The more I see of men, the more I love my cat. Þeir sem þekkja mig vita væntanlega að ég er ekki mikil kattakona...

Og, þetta sem ég sagði um bílinn um daginn er greinilega rétt, það er alveg á hreinu að hann er eitthvað að skjóta sér í bifvélavirkjanum. Nú er framrúðan sprungin!!!

Friday 17 October 2008

Blessaður bíllinn

Ég er að spá í að fara fram á að fram fari rannsókn á fjármálum heimilisins og ætlast til að að bíllinn taki ábyrgð á 50faldri þennslu síðustu mánaða. Þarfasti þjónninn minn er held ég skotinn í bifvélavirkjanum og ég er búin að fara með hann á verkstæðið þrisvar sinnum á fjórum mánuðum til að láta dytta að honum.

Thursday 2 October 2008

Sundnámskeið

Óðinn byrjaði á sundnámskeiði í dag. Við ætlum að fara í þessa tíma í hádeginu á fimmtudögum. Honum fannst alveg ótrúlega gaman og brosti bara hringinn allan tímann sem við vorum í lauginni. Mér fannst líka mjög gaman og líst vel á þessa tíma, kennarinn er mjög hress og skemmtileg stelpa, og krakkarnir gera allt sem hún biður um. Það eina sem mér finnst skrítið er að það eru ekki sér skiptiklefar fyriri konur og karla! Það fara allir inn á sama svæðið og svo eru litlir klefar þar inni sem maður fer inn í og skiptir yfir í sundfötin. Þá þarf maður að bera allt draslið að skápunum og svo er bara labbað beint út í laug ... það þvær sér enginn áður en þeir fara í laugina!!! Mér finnst það heldur subbó, verð bara að segja það. Svo er náttúrulega ekki hægt að þvo sér almennilega í sturtunum, því þær eru sameiginlegar líka!!! Ég fatta þetta bara engan veginn. Það væri minnsta mál að gera þetta að tveim aðskildum svæðum. En, þetta skiptir ekki máli. Mestu skiptir að Óðinn er rosalega ánægður með að fara í sund og ég er glöð að geta farið með honum ... þvæ mér bara vel þegar ég kem heim ;o)

Wednesday 1 October 2008

Skólaskylda!

Skólaskylda byrjar hér í Englandi skólaárið sem börn verða fimm ára. Ég fékk bréf frá skólayfirvöldum þess efnis að nú skyldi ég velja skóla fyrir Óðinn og að umsóknarfrestur sé 16. október. Þetta er allt mjög flókið og ég er nú með lista af skólum sem eru frá 0.8 - 1.4 mílna fjarlægð frá húsinu sem við búum í, þar þarf ég að fara í heimsókn á opna daga og hlusta á hvers vegna ég skuli velja þennan skóla en ekki hinn. Þeir taka inn nemendur í tveimur hópum og Óðinn byrjar í janúar 2010. Ég fór í fyrstu heimsóknina í morgun og leist bara ágætlega á skólann, krakkarnir virtust kát og sátu voða stillt í tímunum. Ég á eftir að fara í fimm skóla í viðbót, svo það verður spennandi að sjá hvort það sé einhver munur á þeim.

Það er fyrsti í sundnámskeiði hjá okkur mæðginum í hádeginu á morgun :)

Monday 29 September 2008

Helgin

Það var mjög gott veður um helgina og við mæðgin nutum þess í botn. Óðinn er orðinn mjög skæður á hjólinu sínu og ég hleyp sveitt á eftir honum. Við tókum því bara rólega, fórum í hjóla/hlaupatúra, slógum grasið í garðinum og fórum til Ashridge í gönguferð um skóginn. Óðinn er á algjöru klifurskeiði þessa dagana og ég þurfti að elta hann upp um allt til að passa að hann færi sér ekki að voða. Hann var líka mjög stoltur að geta kennt mér að hoppa á einum fæti! Mjög gaman.

Tuesday 9 September 2008

Hvað er klukkan?

Óðinn kom upp í rúm til mín í morgun klukkan sex. Ég var að reyna að sannfæra hann um að það ætti alls ekki að fara á fætur fyrr en í fyrsta lagi klukkan sjö, svo hann sneri bara vekjaraklukkunni á hvolf og þá var hún orðin níu! Honum fannst þetta rosalega fyndið - og mér reyndar líka, þó ég sé engin brandarakelling svona snemma á morgnana.

Annars er ég nýkomin heim. Fór í mæðraorlofshelgarferð til Íslands, hitti líffræðigengið, fór á þátíðarhitting með gamla gagnfræðaskólaárgangnum mínum og hitti fjölskylduna í mýflugumynd. Þetta var ótrúlega skemmtileg ferð, gaman að hitta gamla vini og nýja.

Sunday 24 August 2008

Handbolti og PCR

Halló halló, ég er á lífi ... og rúmlega það eftir að hafa vaknað í morgun til að horfa á handboltann. Þetta var kannski ekki skemmtilegasti handboltaleikur sem ég gef séð, var alveg búin að gleyma hvað það er gaman að horfa á handbolta, en magnað hjá strákunum að vinna silfrið. Ég er ekki viss um að það sé manni hollt að lenda í svona geðshræringu snemma morguns!

Óðinn er hjá pabba sínum um helgina, svo ég skellti mér í vinnuna af gömlum vana og var þar að slást við PCR maskínuna þar til klukkan níu í kvöld. Ég held ég hafi náð áfangasigri í þeirri viðureign, eða vona það allavega. Fyrir þá sem ekki vita hvað PCR er, þá bara skiptir það engu máli, nægir að segja að það tekur langan tíma og virkar ekki alltaf sem skildi ;o)