Sunday 29 April 2007

Alþjóðleg hátíð

Það var alþjóðleg hátíð hjá starfsmannafélaginu í vinnunni í dag. Það er mikið af erlendum vísindamönnum og konum sem vinna á rannsóknarstöðinni og árlega er haldið hlaðborð þar sem fólk kemur með rétt frá sínu heimalandi til að deila með öðrum.
Ég bakaði kanilsnúða, en hætti snarlega við að fara með þá, þar sem þeir voru harðir eins og grjót. Ég átti sem betur fer smá söl og harðfisk sem ég fór með í staðinn. Það fannst mörgum sölin ágæt, en harðfiskurinn fékk misjafnar viðtökur. Flestum fannst hann frekar seigur!
Ég smakkaði á flestum réttunum. Þarna voru til dæmis trésveppir og dömplingar frá Kína, tómatsalat frá Chile, hrísgrjónaréttur og fiskréttur frá Ghana, grænmetisréttir frá Indlandi, kartöfluréttur frá Suður Afríku og kjúklingaréttur frá Spáni. Síðan voru eftirréttir allsstaðar að líka. Þetta var alveg frábært og gaman að hitta alla og smakka á og spjalla um matinn. Óðinn var heldur var um sig og neitaði að smakka á flestu, en ég fæ hann kannski til þess að prófa fleira á næsta ári!
Myndin af Óðni er tekin í túninu á bakvið félagsheimilið í vinnunni.

Monday 23 April 2007

Takk

Langaði bara að segja "takk" fyrir kveðjurnar sem við fáum frá ykkur, gaman að vita hverjir kíkja á okkur mæðgin.

Stór strákur og hlífðargleraugu

Jæja, þá er litla barnið mitt að verða fullorðið! Ég fór með hann í klippingu á föstudaginn. Hann var svo stilltur þessi elska, sat alveg grafkyrr í korter á meðan var verið að klippa hann. Nýjasta æðið er að leika sér að bílabraut sem ég keypti handa honum. Hann getur meira að segja sett hana saman. Ég bara trúi varla hvað hann er að verða stór!

Ég fór til tannlæknis í dag, sem er varla í frásögur færandi. Tannlæknirinn ákvað að skipta um fyllingu sem henni fannst vera orðin frekar þreytt. Ég hef alltaf verið mjög tannlæknafælin og leist alls ekki á blikuna þegar hún skellti á mig hlífðargleraugum. Þegar ég spurði til hvers ég þyrfti þau sagði hún að þetta væri "öryggisatriði". Það lá við að ég fengi taugaáfall. Ég sá hana fyrir mér ráðast til atlögu og spóla niður tennurnar eina af annarri og að þetta yrði meiriháttar blóðbað. Betur fór þó en á horfðist og þegar ég leit í spegilinn eftir á voru allar tennurnar til staðar, ég var reyndar með dofna vör og tungu og slefaði smá, en það er ekkert óvanalegt...

Góð helgi

Þetta er búið að vera hin fínasta helgi, mjög afslappað. Ég skrapp á kránna með vinnufélögunum á föstudagskvöldið eftir vinnu, sem var mjög fínt. Síðan fór ég á The Comedy Store, uppistandsklúbb í London, í gærkvöldi og held ég hafi hlegið stanslaust í tvo klukkutíma. Þetta var alveg frábært og ég er með harðsperrur í hláturvöðvunum í dag.
Nú er ég á fullu að vinna. Ég þarf að skila inn efni á veggspjald fyrir ráðstefnu á morgun. Síðan koma fulltrúar af ráðstefnu bresku konunglegu vísindaakademíunnar um gróðurhúsaáhrif í heimsókn til rannsóknarhópsins míns á miðvikudaginn. Þau koma til með að fara um og kynna sér það sem við erum að gera og ég á meðal annarra að segja þeim frá rannsóknunum mínum. Mjög spennandi!

Tuesday 17 April 2007

"Íþróttastjarna"

Hey! Ég skoraði tvö mörk í snertirúgbíinu í dag og er alveg ótrúlega stolt! Það er ekki ljóst hvort það var gamli aerobic gallinn eða mínir sjálfslýsandi hvítfjólubláu leggir sem rugluðu andstæðingana í ríminu, en það skiptir ekki máli, ég náði að skora :)
Nú bíð ég bara eftir að atvinnuliðin byrji að bjóða í mig...

Monday 16 April 2007

Mamma pumpa

Óðinn er búinn að læra nýtt orð og notar það óspart þessa dagana. Ég vissi ekki að prumpubrandarar væru fyndnir hjá svona ungum börnum og sé nú fram á þetta verði margra ára fyndni. Hann hefur sem sagt sjálfskipaða tilkynningaskyldu ef honum eða öðrum verður á að leysa vind ... sem betur fer skilur þetta enginn hérna og ég ætla ekkert að kenna honum ensku útgáfuna!

Það er annar í snertirúgbí á morgun. Ég gleymdi að kaupa nýjan íþróttagalla um helgina, svo ég verð bara í hallærislegum aerobic fötum frá áttunda áratugnum, með sjálflýsandi ennisband, grifflur, legghlífar og allt. Planið er að lama andstæðingana úr hlátri, svo ég nái að skora allavega eitt mark.

Sunday 15 April 2007

Sumar og sól

Það er búið að vera mikil blíða hjá okkur um helgina, algjört sólarstrandaveður. Við vorum bara í rólegheitunum, fórum út að hjóla og kíktum til Auðar, en hún var með þessa fínu vaðlaug úti í garði. Minn var rosa ánægður að fá að sulla smá...

Friday 13 April 2007

Gönguferð



Ég ákvað við mikil fagnaðarlæti að labba í vinnuna í gær. Óðni fannst þetta alveg frábær hugmynd og vildi ólmur setja upp hattinn og sólgleraugun. Hann hélt síðan uppi stöðugu upplýsingaflæði um það sem markverðast var að sjá þær 40 mínútur sem það tók okkur að komast í vinnuna (fyrir þau ykkar sem ekki vita, þá er leikskóli rekinn á rannsóknarstöðinni). Fararstjórnin hélt síðan áfram alla leiðina heim. Ég hafði aldrei tekið eftir því fyrr hvað það eru margir vörubílar og hjól á ferðinni um bæinn okkar!
Við ætluðum að endurtaka leikinn í dag, en Óðinn svaf yfir sig, svo við urðum að rjúka út og nota bílinn...
Það spáir hitabylgju hjá okkur um helgina, sumarfötin eru komin úr geymslu og planið er að vera úti í garði frá morgni til kvölds! Jibbíí.

Tuesday 10 April 2007

Íþróttaálfur

Nei, nei, ég er ekki að tala um Óðinn, heldur sjálfa mig. Ég lét plata mig í að spila snertirúgbí með vinnufélögunum í dag. Ég hef aldrei talist mikil íþróttakona, en þetta var mjög gaman. Ég sýndi að sjálfsögðu mikla takta og sé fram á harðsperrur aldarinnar á morgun. Það eru sem betur fer engar myndir til af þessu, svo þið verðið bara að nota ímyndunaraflið... Svo er maður búinn að lofa að mæta aftur í næstu viku, svo nú leggst ég yfir bækur og skoða leikfléttur, fer síðan og kaupi mér alklæðnað sem hæfir rúgbístjörnu og mæti klár í slaginn að viku liðinni.

Monday 9 April 2007

Páskaegg


Mmmm, Óðinn fékk páskaeggið sitt í eftirmat í kvöld. Hann var alveg ákveðinn í því að það væri kaka og smakkaði fyrst á unganum, en komst síðan að því að botninn var miklu betri á bragðið!

Það tókst!!!


Sæl og blessuð,
Þá er ég loksins búin að setja upp blog síðu fyrir okkur mæðgin. Ég er ekki viss um að ég eigi eftir að skrifa mikið á hana, en tekst vonandi að hlaða inn nokkrum myndum reglulega ...
Gia