Monday 29 September 2008

Helgin

Það var mjög gott veður um helgina og við mæðgin nutum þess í botn. Óðinn er orðinn mjög skæður á hjólinu sínu og ég hleyp sveitt á eftir honum. Við tókum því bara rólega, fórum í hjóla/hlaupatúra, slógum grasið í garðinum og fórum til Ashridge í gönguferð um skóginn. Óðinn er á algjöru klifurskeiði þessa dagana og ég þurfti að elta hann upp um allt til að passa að hann færi sér ekki að voða. Hann var líka mjög stoltur að geta kennt mér að hoppa á einum fæti! Mjög gaman.

Tuesday 9 September 2008

Hvað er klukkan?

Óðinn kom upp í rúm til mín í morgun klukkan sex. Ég var að reyna að sannfæra hann um að það ætti alls ekki að fara á fætur fyrr en í fyrsta lagi klukkan sjö, svo hann sneri bara vekjaraklukkunni á hvolf og þá var hún orðin níu! Honum fannst þetta rosalega fyndið - og mér reyndar líka, þó ég sé engin brandarakelling svona snemma á morgnana.

Annars er ég nýkomin heim. Fór í mæðraorlofshelgarferð til Íslands, hitti líffræðigengið, fór á þátíðarhitting með gamla gagnfræðaskólaárgangnum mínum og hitti fjölskylduna í mýflugumynd. Þetta var ótrúlega skemmtileg ferð, gaman að hitta gamla vini og nýja.