Thursday 29 May 2008

Jarðskjálfti

Ég sá á netinu í dag að það hafi orðið annar Suðurlandsskjálfti. Þó það hafi verið tekið fram að engin stórslys hafi orðið á fólki, þá fannst mér óþægilegt að vera svona langt í burtu, sérstaklega þar sem upptökin voru á mínum heimaslóðum. Ég er búin að heyra í og af fjölskyldunni og veit að þar eru allir heilir. Vona að allir hafi það sem best.

Wednesday 28 May 2008

Tónlist í rigningu

Ég var í úti á túni að leita að blaðlúsum í dag með spilarann í eyrunum að venju og komst að því að Edith Piaf er flott á svona degi. Það er allt grátt og svona úði sem kemst allstaðar inn undir. Sem betur fer var ég með linsur, því gleraugu virka engan veginn í svona úða. En allavega, þá var Piaf góður félagi í rigningunni.

Tuesday 27 May 2008

Skýrslan

Skýrslan um ágengu tegundirnar og flokkunarfræði er komin út á netinu: Invasive species management: what taxonomic support is needed? Hún er gefin út af Global Invasive Species Programme.

Setti slóðina inn svo þið getið lesið hana ykkur til dundurs...

Friday 23 May 2008

Aberdeen

Ég var að koma heim af ráðstefnu í Aberdeen. Ég hafði ekki farið svo norðarlega í Skotlandi áður og mér fannst ég vera komin hálfa leiðina heim til Íslands. Það var mjög kunnuglegt að vakna við mávagarg og köll í tjaldi, finna sjávarloftið, nú og svo var líka kaldara og meira rok alveg eins og heima. Ráðstefnan var mjög fín, það voru 38 fyrirlestrar á einum og hálfum degi, svo ég er vel þreytt núna. Fyrirlesturinn gekk alveg ágætlega, ég fékk nokkrar góðar spurningar og svo voru ágætis umræður um verkefnið mitt seinna.

Borgin var allt í lagi, fallegur granítsteinn í húsunum, en niðri við höfnina var mikið af sjóarakrám og ég er ekki viss um að ég myndi labba þar um eftir myrkur. Ráðstefnuhaldarar fóru með okkur að Dunnottar, mjög fallegum kastala, þar sem við gengum um í um klukkutíma og fórum síðan á veitingastað í sjávarbæ sem heitir Stonehaven.

Þetta var mjög fín ferð og ég hitti mikið af góðu fólki, en ég hlakka líka mikið til að fara og ná í Óðinn í fyrramálið, er búin að sakna hans óendanlega.

Tuesday 20 May 2008

Chelsea Flower Show

Ég var að vinna á standinum okkar á Chelsea Flower Show í dag. Okkar standur er partur af símenntunarhluta sýningarinnar og það var mikið af fólki sem kom og talaði við okkur, bæði um víðitrén og vísindin, svo það var mjög gaman. Það er aðallega áhugafólk um garðrækt sem sækir sýninguna, en fólk kemur allstaðar að úr heiminum. Fólk er orðið mjög meðvitað um græna orku og margir farnir að huga að því að verða sjálfbærir með orku fyrir heimilin.

Svo spillti ekki að standurinn fékk "Gull", sem er hæsta einkun sem dómararnir gefa :)

Kíkið á slóðina hérna: Chelsea Flower Show þar sem er mynd af standinum og á listann yfir verðlaunahafa (við erum undir "Continuous learning").

Saturday 17 May 2008

Skýrsla

Ég fékk símtal í gær frá fyrrverandi vinnuveitanda. Hann var að segja mér að skýrsla sem ég skrifaði fyrir um tveimur árum á að koma út á mánudaginn. Ég var alveg búin að gefa upp von með að hún yrði nokkurn tímann birt, svo ég er að sjálfsögðu mjög kát með þetta.

Annars er ekkert merkilegt að gerast þessa helgina. Ég er í vinnunni að undirbúa fyrir Chelsea Flower Show, þar sem grúppan er með stóran stand um víði og "græna orku". Við erum að kynna rannsóknirnar sem við erum að gera og það verða m.a. búr með blaðlúsum til að sýna fólki. Drottningin labbar víst um svæðið á mánudaginn (sýningin opnar fyrir almenningi á þriðjudaginn), og ég vil endilega að kella sjái gæludýrin mín ;)

Það er hópur úr vinnunni að fara á indverskan veitingastað í kvöld, svo ég skelli mér kannski með ... fer eftir hvenær ég klára á labbanum ...

Wednesday 14 May 2008

Takk takk

Takk fyrir afmæliskveðjurnar, bæði hér, í símanum og tölvupóstana.

Ég eyddi sjálfum afmælisdeginum á tölfræðikúrsi. Fyrir þá sem ekki vita, þá eru líffræðingar haldnir mikilli tölfræðiskelfingu og þetta þóttu hræðileg örlög. Samnemendur mínir á kúrsinum keyptu handa mér köku með afmæliskertum og blómvönd, til að gera daginn þolanlegri. En, kúrsinn var alveg ótrúlega góður og ég þykist vera orðin mikið tölfræðiséni núna ;)

Sunday 11 May 2008

Gaman gaman



Helgin er búin að vera alveg yndisleg, glampandi sól og steikjandi hiti. Við tókum því rólega í gær mæðginin og áttum langþráðan "fjölskyldudag" þar sem við kíktum í búðina, lékum okkur í garðinum, fórum í göngutúra, út að hjóla og bökuðum krispies kökur fyrir Óðinn. Það er svo gaman að honum, hann þarf að spá í öllu og talar út í eitt.




Í dag hélt ég smá afmælisveislu í tilefni af því að ég verð 29 ára á þriðjudaginn ;-) Ég útbjó íslenskt afmælishlaðborð, með brauðréttum, brauðtertum, ostum og tertum. Emily vinkona mín kom með afmælisköku og útbjó sérstakan afmælisdrykk með mangó og kampavíni. Þetta var mjög skemmtilegt og við eyddum öllum eftirmiðdeginum í garðinum í 25°C og stillu, sögðum brandara, spiluðum fótbolta og frisbí við krakkana og endurnýjuðum sólarvörnina reglulega.


Skál :)

Sunday 4 May 2008

Enn ein vinnuhelgin...

Jebb, ég er á labbanum þessa helgina. Þetta er meira að segja löng helgi hjá okkur, þar sem 1. maí frídagurinn er færður fram á mánudag. Það gengur aðeins betur en fyrr í vikunni, þegar allt var í uppnámi í vinnunni hjá mér vegna blaðlúsavandamála. Blaðlýsnar eru enn á trjánum, svo ég þurfti að snúa mér að öðru, þangað til það leysist. Nú er ég að vinna í stofnerfðafræði og það er bara mjög spennandi ... allavega á meðan vel gengur.

Óðinn er hjá pabba sínum um helgina, en ég heyrði í honum í síma áðan. Hann var að koma úr afmæli hjá Sam, vini sínum, og ég fékk nákvæmar lýsingar á veislunni og nammipokanum sem hann fékk þegar hann fór heim (hér fá krakkar alltaf lítinn poka með nammi og dóti á leiðinni heim úr afmælum). Nú fer ég að verða stressuð yfir afmælinu hans Óðins! Í þessu afmæli var hoppukastali og allskonar leikir. Það fer að verða spurning um að flytja Siggu systir inn til að redda þessu fyrir mig!!!

Thursday 1 May 2008

Baby Christmas

Óðinn fann í kvöld dót sem Kristófer litli frændi hans hafði leikið sér með þegar þau voru hérna um páskana og hafði miklar áhyggjur af því að "baby Christmas" (hann getur ekki sagt Kristófer og kallar hann bara jól í staðinn) hefði ekki dótið hjá sér á Íslandi.