Sunday, 16 December 2007

Helgin

Þetta er búin að vera mikil vinnuhelgi. Óðinn er hjá pabba sínum, svo það var um að gera að nota tímann vel. Ég er að vinna í stofnerfðafræði blaðlúsarinnar minnar. Þetta hefur gengið frekar hægt og ég er að keppast við að ná ákveðnum áfanga þar fyrir jól. Svo er ég líka að vinna í grein um bjöllusamfélög í skógum. Þetta er úr gögnum sem ég var að vinna í á Náttúrufræðisafninu í London áður en ég byrjaði í doktorsnáminu, þannig að það væri gott að geta klárað það fljótlega.
Það var jólaball í vinnunni í dag fyrir börn starfsfólks. Steven kom með Óðinn, sem skemmti sér konunglega. Þarna voru allir vinir hans úr leikskólanum (leikskólinn er fyrir börn starfsmanna) og þau hlupu stanslaust í hringi í þrjá tíma. Þessi hópur tveggja ára barna hafði litla þolinmæði fyrir skemmtiatriðin. Ég get reyndar alveg skilið það, fannst kallinn ekkert mjög fyndinn heldur. Í lokin kom svo jólasveinninn. Það var mjög flott, hann var í kerru sem var dregin af litlum hesti. Krakkarnir áttu varla orð yfir þessu öllu saman. Jólasveinninn kallaði þau síðan öll upp með nafni og gaf þeim pakka. Minn hljóp til jólasveinsins þegar hans nafn var kallað upp og þurfti ekkert að láta halda í hendina á sér þetta árið!

1 comment:

Anonymous said...

Hæ, hæ..

Ég kíki alltaf á síðuna þína öðru hverju, þú ert sumsé inní bloggrúntinum mínum ;-)

Kv. Randý

Já og gleðileg jól!